Teið er tilbúið!

(Leiðari Austurgluggans 5. febrúar 2009)

 

Ég bjó í Þýskalandi fyrir margt löngu og kynntist þá aldraðri konu sem hafði svo sannarlega upplifað tímana tvenna. Hún var nokkuð sérvitur og hafði sína siði og venjur óháð tímans straumi. Margt í samtímanum var henni ýmist ekki að skapi eða hún skildi það hreinlega ekki.

teacup.jpg

Hún átti fornfálegt en gullfallegt viðtæki frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Það var geymt í sparistofunni og brakaði í því og brast þegar snúið var í gang. Á sunnudögum var ævinlega flutt útvarpsleikrit á einni ríkisrásinni og þessi ágæta kona hafði til margra ára lagt á borðstofuborðið tebolla og meðlæti fyrir jafnmarga og leikrit dagsins fluttu. Í leikslok hallaði hún sér alltaf að viðtækinu og hvíslaði inn í velktan viðinn að teið væri tilbúið. Beið svo eftir því að leikararnir kæmu út úr tækinu til að þiggja teið. Hún var handviss um að einn góðan veðurdag myndi það raunverulega gerast og beið því þolinmóð. Galdrar útvarpsbylgjanna voru henni þannig hulin ráðgáta. Nú er liðin tíð að útvarpsleikaranna bíði notalegt teboð á sunnudagssíðdegi, því gamla konan er öll.

 

 

Nú hallar öll íslenska þjóðin sér að viðtæki því sem nefnist ríkisstjórn og hrópar í lúinn umbúnaðinn ,,hvernig ætlið þið að bjarga Íslandi?“

  

Því er haldið fram að við skuldum svo mikið að við munum aldrei geta borgað. Því ættum við að segja okkur strax til sveitar í stað þess að láta murka hægt og bítandi úr okkur vonarneistann um betri tíð. Ekki veit ég hvað er til í því, en þetta veldur mér þungum áhyggjum.

  

Kannski að maður setji miða í gluggana þar sem stendur ,,hér er ekki kreppa“ og slái svo upp teboði.

Og bíði átekta.

 

 

                                                                                                   Steinunn Ásmundsdóttir

  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.