„Það voru áætlunarferðir í gegnum Viðfjörð til Akureyrar“

Inn úr Norðfjarðarflóa ganga þrír firðir, nyrstur er Norðfjörður, þá kemur Hellisfjörður og syðstur er Viðfjörður. Í Viðfirði var búið þar til árið 1955 þegar íbúar á síðustu þremur bæjum fjarðarins ákváðu að flytja og lagðist fjörðurinn þar með í eyði. Lauk þar með um 200 ára búsetu Viðfjarðarættarinnar í firðinum en ættin bjó ætíð á bæ samnefndum Viðfirði.


Lífsbaráttan var hörð í Viðfirði eins og víða á Íslandi á þeim árum sem búið var í firðinum. Meðal síðustu ábúenda Viðfjarðar voru hjónin Guðríður Þorleifsdóttir og Guðni Þorleifsson ásamt börnum Guðríðar úr fyrra hjónabandi; Sveini, Þorgeiri Víði, Ólöfu Erlu og Freysteini en saman áttu þau Guðríður og Guðni soninn Þórarinn Viðfjörð sem skírður var eftir fyrri eiginmanni Guðríðar. Austurglugginn settist niður með Freysteini Þórarinssyni, sem flutti frá Viðfirði tvítugur ásamt fjölskyldu sinni, og ræddi við hann um lífið í Viðfirði.

Sjóslysið árið 1936
Freysteinn Þórarinsson getur rakið ættir sínar til Viðfjarðar aftur til langalangalangalangafa síns Sveins Bjarnasonar sem bjó í Viðfirði um miðja 18. öld. Jörðin erfðist mann fram af manni og á aðfangadag árið 1927 lést afi Freysteins, Sveinn Bjarnason, og tóku þá þrír synir hans við jörðinni ásamt móður sinni Ólöfu en það voru þeir; Sófus Lynge, Frímann og Þórarinn Viðfjörð, faðir Freysteins.


Guðríður Þorleifsdóttir, móðir Freysteins, var frá Hofi á Norðfirði en kynntist Þórarni þegar hún var vinnukona á Barðsnesi og flutti til Viðfjarðar árið 1929. Saman eignuðust þau Þórarinn og Guðríður sitt fyrsta barn, Svein, ári síðar. Það sama ár var lokið byggingu á nýjum Viðfjarðarbæ, sem teiknaður var af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, og stendur sá bær enn í Viðfirði. Á næstu fimm árum fjölgaði ört í barnahópnum og voru systkinin orðin fjögur árið 1935 þegar Freysteinn fæddist.
Lífið í Viðfirði var nokkuð hefðbundið þar sem bústörfum var sinnt og karlmennirnir reru til sjós. Í byrjun október árið 1936 áttu sér stað voveiflegir atburðir fyrir fjölskylduna í Viðfirði. „Fjórir fullorðnir karlmenn, þar af þrír bræður, fórust á trillubát fyrir Austurlandi í fyrradag, í góðu veðri og sjólausu, en í niðadimmri þoku. Mennirnir voru: Þórarinn Sveinsson (34 ára), Frímann Sveinsson (26 ára), Sófus Sveinsson (30 ára) alt bræður frá Viðfirði (skamt frá Neskaupstað), og Halldór Eiríksson (56 ára), aldraður einsetumaður á nýbýli hjá Viðfirði. Með þeim bræðrum Sveinssonum, er farin einasta fyrirvinna heimilisins að Viðfirði. Unnu þeir fyrir aldraðri móður sinni og konu Þórarins og fjórum börnum hans. Hinir bræðurnir tveir eru ókvæmtir. Hefir þessi atburður komið eins og reiðarslag á heimilið. Frjettaritari vor á Norðfirði símar, að menn sjeu sem furðu lostnir útaf þessum hörmulega atburði,“ sagði í Morgunblaðinu daginn eftir slysið.
Thad voru aaetlunarferdir i gegnum Vidfjord til Akureyrar 1

Þórarinn Viðfjörð faðir Freysteins sem lést í slysinu. Mynd: Skjala- og myndasafn - Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar.

Viðfjarðarskotta og Þórbergur Þórðarson
Í uppvexti Freysteins var Viðfjarðarbærinn í raun tvö býli þar sem móðir hans rak annað og Sigríður mágkona hennar rak hitt ásamt sænskum manni sínum Karl Hjelm. „Það var aðallega lifað af fjárbúskap, ég hugsa að kindurnar hafi verið um 200 síðasta veturinn okkar, og svo voru tvær til þrjár kýr fyrir heimilið. Það var lítið sóttur sjórinn eftir að þeir bræður fórust árið 1936 því það var enginn mannskapur til þess. Eftir slysið kom til okkar maður úr Hellisfirði sem hét Jón Símonarson og hann var hjá okkur í tvö ár. Þá fluttu til okkar Guðrún, föðursystir mín, og maðurinn hennar Sigurður Guðmundsson og voru í nokkur ár á bænum. Það munaði um fleiri hendur og við krakkarnir á bænum fórum svo að taka til hendinni um leið og við gátum. Hið daglega líf okkar krakkana var að mestu bundið við bústörfin,“ segir Freysteinn.


Veröld Freysteins var bundin við Norðfjarðarflóa, reglulega þurfti að sækja verslun eða þjónustu til Norðfjarðar og þá var stutt í Hellisfjörð úr Viðfirði. Freysteinn minnist þess að hafa í fyrsta sinn farið til Eskifjarðar þegar hann var ellefu ára gamall og var það þá lengsta ferðalag sem hann hafði farið í. Krökkunum í Viðfirði leið þó vel og segir Freysteinn leikfélagana hafa verið skemmtilega. „Við alsystkinin voru lengst af fjögur og stutt á milli okkar. Rétt yngri en ég voru svo synir Sigríðar og Karls Hjelm þeir Karl og Friðþór. Svo var frænka okkar, Hulda, dóttir Guðrúnar og Sigurðar. Hún var stærstan hluta vetrar í Reykjavík og kunni því og vissi allt betur en við, og stjórnaði náttúrlega öllu,“ segir Freysteinn léttur í bragði.


Hulda varð á þessum árum hluti af bókmenntasögu landsins en í Reykjavík ræddi rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson við ungu stúlkuna um lífið í Viðfirði og skrifaði eftir það bókina Viðfjarðarundrin sem kom út árið 1943. Hulda var því hin víðfræga Viðfjarðarskotta Þórbergs Þórðarsonar. „Það var mikil óánægja með þessa bók Þórbergs í Viðfirði. Hann gefur hana vissulega út sem skáldsögu svo hann mátti færa í stílinn en draugagangur í Viðfirði var ekki mikið ræddur í mínum uppvexti. Fólki fannst það ekki við hæfi að bendla sjóslysið árið 1936 við einhvers konar draugagang. Viðfirðingar voru misviðkvæmir fyrir því að ræða þennan meinta draugagang, móðir mín vildi t.d. ekki heyra á hann minnst og alls ekki í tengslum við slysið,“ segir Freysteinn.

Róið með árum í skólann
Árið 1942 gerðist Guðni Þorleifsson, frá Naustahvammi á Norðfirði, ráðsmaður á býli Guðríðar á Viðfjarðarbænum. Það myndaðist kærleikur milli húsfreyjunnar og ráðsmannsins og úr varð ástarsamband þeirra á milli. „Guðni kom sem ráðsmaður en endaði sem fóstri minn. Saman eignuðust mamma og Guðni yngsta bróðir minn árið 1949 og þau giftu sig árið 1952,“ segir Freysteinn en yngsti bróðir hans var skírður í höfuðið á fyrrum eiginmanni Guðríðar, Þórarinn Viðfjörð.


Börnin í Viðfirði sóttu farskóla lengst af og segir Freysteinn það hafa verið misjafnt hvenær börnin hófu nám. „Ég byrjaði í skóla níu ára en systir mín var sjö ára þegar hún byrjaði. Heimilisfólkið hafði hjálpað manni að draga til stafs og slíkt áður en ég hóf formlegt nám. Ég var í skóla í Gerði (Barðsnesgerði) en farskólinn virkaði þannig að það var kennt annan hvern mánuð á Suðurbæjunum á móti mánuði í sveitinni á Norðfirði þar sem kennt var á Kirkjumel. Svo ég fékk kennslu í u.þ.b. þrjá mánuði á vetri,“ segir Freysteinn um upphaf skólagöngu sinnar.


Þegar Freysteinn var um fermingaraldur varð Kirkjumelur að heimavistarskóla og voru þá börnin frá Viðfirði send þangað í heimavist og farskólinn lagðist af. „Fyrsta ferð mín í heimavistarskólann var eftirminnileg. Við áttum trillu í Viðfirði sem var aðallega notuð í að komast til Norðfjarðar. Guðni fór með mig og Ólöfu systur mína yfir. Það var ekki hægt að koma vélinni í gang þennan daginn en við þurftum að komast í skólann. Það var því lítið annað að gera en að róa á trillunni til Norðfjarðar, Guðni með aðra árina og við Ólöf saman með hina. Blessunarlega var blíðskaparveður þennan dag,“ rifjar Freysteinn upp. „Samgöngur voru ekki alltaf auðveldar á þessum árum. Það tíðkaðist t.d. að ganga til altaris um tveimur vikum eftir fermingu. Þegar kom að því að ég ætti að ganga til altaris þá gekk yfir stormur. Ég gekk því ekki til altaris fyrr en löngu síðar með mínum börnum,“ segir Freysteinn og brosir. „Það kom líka fyrir að það þurfti að ganga landleiðin frá Viðfirði til Norðfjarðar. Það gerðum við t.d. alltaf þegar við fórum með féð til slátrunar, það tók stóran hluta úr degi. Eitt sinn var svo mikið í Norðfjarðaránni að við þurftum að reka féð yfir Hnjúka til þess að losna við að fara með féð yfir ána. Sömuleiðis kom fyrir að maður þurfti að fara í erindisferðir til Norðfjarðar fótgangandi.“
Thad voru aaetlunarferdir i gegnum Vidfjord til Akureyrar 6

Systkinin Sveinn, Ólöf og Freysteinn í Viðfirði. Mynd: Skjala- og myndasafn - Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar.

Allir á sömu skíðunum
Freysteinn fór ekki í frekara nám að skólaskyldu lokinni fyrr en nokkru síðar þegar hann fór á vélstjóranámskeið á Seyðisfirði. Áfram héldu bústörfin í Viðfirði og öll fjölskyldan lagðist á eitt en stundum var lífsbaráttan erfið í firðinum. Freysteinn segir að óhætt sé að segja að fátækt hafi verið á Viðfjarðarheimilinu en móðir hans náði alltaf að halda fjölskyldunni saman og á eldri árum sagði hún það hafa verið það sem hún var stoltust af. „Það var alltaf til matur í Viðfirði og föt til að ganga í, við liðum ekki slíkan skort. Allur munaður var þó af skornum skammti og það var ekki hægt að veita okkur allt. Okkur langaði í hluti eins og skíði og sleða en það var ekki í boði. Sveinn elsti bróðir minn fékk svo loks skíði, það bjargaði náttúrlega skíðamálunum, það notuðu allir þessi skíði sem hann fékk. Það var svo til stór sleði sem sennilega var ætlaður fyrir hesta að draga, það kom fyrir að við tókum þennan sleða og fórum upp í brekkur og renndum okkur niður,“ segir Freysteinn.


Árin 1949 til 1952 voru einkar erfið fyrir Viðfjarðarbúið. „Árið 1949 misstum við stóran hluta af lömbunum í lambablóðsótt, ég held við höfum átt fimmtíu lömb eftir frá 200 ám. Ástandið lagaðist þó næstu árin þegar það komu meðöl við þessu, bæði til að sprauta lömbin sem og ærnar. Þetta var alveg skelfileg veiki, lömbin fengu venjulega krampa og oft þurfti maður einfaldlega að aflífa þau,“ segir Freysteinn þungur á brún.


Erfitt reyndist að heyja jörðin við Viðfjörð og lítið var um slægjur. „Við heyjuðum oft í fjalli og þá þurftum við að nota hrossin okkar til að flytja heyið niður að bænum. Túnin í kringum bæinn voru lítil og rétt dugðu fyrir kýrnar. Það voru flatlendi þarna sem voru mýrar en það voru ekki til neinar græjur þá í firðinum til að grafa og útbúa tún á því svæði. Það hefði ekki verið neitt vandamál í dag, það var meira að segja byrjað á því áður en við fluttum í burtu. Tæki í Viðfirði voru af afar skornum skammti og ég var orðinn stálpaður þegar ég man eftir því að bæirnir í Viðfirði og Suðurbæirnir keyptu í sameiningu traktor,“ segir Freysteinn.

Gisting fyrir rúmlega 100 manns
Það var gestkvæmt í Viðfirði á þeim árum sem Freysteinn bjó þar. Áætlunarsiglingar voru á milli Norðfjarðar og Viðfjarðar en samgöngur Norðfirðinga á landi fóru að mestu í gegnum Viðfjörð. „Það voru áætlunarferðir í gegnum Viðfjörð til Akureyrar. Kaupfélag Héraðsbúa rak bílaútgerð, fólksbíla, vörubíla og rútur, á Reyðarfirði og voru með áætlunarferðir frá Norðfirði til Akureyrar í gegnum Viðfjörð. Það voru haldnar fjölmennar samkomur á þessum árum hjá Framsóknarflokknum í Hallormsstað og hjá Sjálfstæðisflokknum á Egilsstöðum. Það fór fjöldi manns á þessar samkomur og ég man eftir því þegar ég var yngri þá var fólkið ferjað á vörubílum, og sat bara á pallinum upp í Hérað, undir beru lofti,“ segir Freysteinn.


Þar sem Norðfirðingar komust ekki langt á bílum sínum nema frá Viðfirði voru geymdir nokkrir bílar í Viðfirði sem Norðfirðingar áttu. „Það voru ófá skiptin sem fólk fékk næturgistingu og fæði hjá okkur. Einhverjar tekjur hafði heimilið af slíku. Ég man eftir einu skipti þar sem fólk var að koma í miklu rigningarveðri af einum af þessum samkomum af Héraði. Eitthvað voru lækirnir erfiðir yfirferðar á leiðinni út í Viðfjörð og rúturnar töfðust. Báturinn kom en fór svo aftur því aldrei komu rúturnar. Loksins skilaði fólkið sér og ég held að þetta hafi verið þrjár rútur, hver rúta hefur sennilega tekið um fjörutíu manns. Það þurfti að hýsa allt þetta fólk og um nóttina lá það inn á gólfi hjá okkur, í hlöðunni og hvar sem hægt var að koma því fyrir. Það var alveg mígandi rigning og daginn eftir þegar fólkið þurfti að komast í bátinn var erfitt að komast að bryggjunni og brugðið á það ráð að nota einn bílinn sem geymdur var í Viðfirði, gamall herbíll, til þess að ferja fólkið að bryggjunni,“ segir Freysteinn og brosir.
Þó svo að vegur væri á milli Viðfjarðar og Eskifjarðar var hann oft torfær. „Menn fóru þetta nú á öllum bílum en hann var nú orðinn ófær strax á haustin. Okkar aðalsamgöngur voru á sjó með trillunni sem var í Viðfirði.“

Thad voru aaetlunarferdir i gegnum Vidfjord til Akureyrar 4

Farnar voru áætlunarferðir á rútum á milli Viðfjarðar og Akureyrar. Hér stendur ein rútan við Viðfjarðarbæinn um miðja síðustu öld. Mynd: Mynda- og skjalasafn - Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar.


Viðfjörður leggst í eyði
Viðfjörður lagðist í eyði árið 1955 þegar flutt var af Viðfjarðarbænum og Stuðlum sem voru síðustu bæir Viðfjarðar sem enn var búið á. Guðríður og Guðni fluttu að Naustahvammi á Norðfirði, æskuheimili Guðna, ásamt börnunum. „Það var ekki mikið talað um að flytja frá Viðfirði áður en sú ákvörðun var tekin,“ segir Freysteinn en með flutningnum var um 200 ára búsetu ættarinnar í Viðfirði lokið. Freysteinn segir að það hafi ekki verið neinn tregi að fara en erfitt er fyrir Freystein að rifja upp þá atburði sem urðu til þess að flutt var frá Viðfirði.


„Um nónbil í gær bárust þær fréttir vestan úr Grundarfirði, að þar hefði orðið hörmulegt sjóslys. Síldveiðiskipinu Eddu frá Hafnarfirði hvolfdi nokkrum hundruð metrum undan landi er ofsalegur stormsveipur skall á skipið á mánudagsmorgun. Af 17 manna áhöfn létust 9 skipverjar. Þrír þeirra létust úr kulda og vosbúð,“ sagði á forsíðu Morgunblaðsins 18. nóvember árið 1953.


„Með Eddu fórust tveir bræður frá Gerði, þeir Jósep og Sigurður Guðmundssynir, en Sigurður var þá reyndar búsettur í Hafnarfirði. Þetta verður til þess að flutt er frá Gerði árið 1954 þó það sé skráð að það hafi verið flutt þaðan árið 1955 en það er vegna þess að einn maður varð eftir á bænum og sá um féð, en það var Svavar tvíburabróðir Jóseps og bjó hann þennan vetur hjá föðurbræðrum sínum á Stuðlum. Með því að fjölskyldan á Gerði flutti úr Viðfirði var einungis búið á þremur bæjum, Viðfjarðarbænum, Barðsnesi og Stuðlum. Fjölskyldurnar ákváðu í sameiningu að flytja í burtu frá Viðfirði sem lagðist þar með í eyði,“ segir Freysteinn og það leynir sér ekki að þungbært er fyrir hann að rifja upp hræðileg örlög nágranna sinna. „Með því að það fækkaði í firðinum var erfiðara að búa þar. Kannski hefði fjörðurinn lagst í eyði fljótlega, maður veit það ekki, en brottflutningur þeirra setti strik í reikninginn.“

Römm er sú taug
Freysteinn og fjölskylda hans halda fast í ræturnar og eiga Viðfjarðarbæinn enn. Þau gerðu hann upp fyrir um þrjátíu árum síðan og honum er vel við haldið. „Fyrstu árin eftir að við fluttum reyndum við að halda bænum við. Það endaði þó með því að það var allt brotið og bramlað í bænum, meðal annars rúður brotnar innan frá sem við vorum búin að negla fyrir. Þá gáfust við upp á því að reyna halda honum við,“ segir Freysteinn. „Það er svo árið 1989 sem að Sveinn bróðir fer að tala um að hann sé búinn að smíða sex glugga fyrir Viðfjarðarbæinn og spyr okkur bræðurna hvort við eigum ekki að fara og laga húsið eitthvað til að utan. Það var upphafið af því að réðumst í endurbætur á húsinu. Fljótlega vorum við búnir að taka allt húsið í gegn. Við skiptum um alla glugga og manni þykir merkilegt, að þeir eru orðnir þrjátíu ára í dag en eru eins og nýir.“


Freysteinn keypti hraðbát sem einfaldaði mjög ferðir fjölskyldunnar út í Viðfjörð. „Við fórum reglulega til Viðfjarðar á bátnum og unnum í húsinu. Fyrst löguðum við það að utan svo það liti sæmilega út. Þá fórum við að velta fyrir okkur hvort það væri ekki sniðugt að taka í gegn eldhúsið og svefnherbergi svo við gætum sofið í húsinu og svoleiðis vatt verkefnið upp á sig,“ segir Freysteinn.


Freysteinn segir að fjölskyldan sé stolt af húsinu eins og það er í dag og vonast eftir að því verði haldið við í framtíðinni. „Við erum að vona að einhverjir taki svo við þessu. Páll sonur minn setti upp virkjun sem sér bænum fyrir rafmagni, það er alveg stórkostlegt. Þetta gjörbreytir húsinu að vera kynt upp allt árið, engin fúkkalykt í því eða neitt,“ segir Freysteinn.
„Viðfjörður er enn hluti af fjölskyldunni og hún á góðar minningar þaðan, þó svo að ekki sé búið þar lengur,“ segir Freysteinn að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.