Þessi undarlegu ósköp - Fiskeldissjóður

Í fjörðum víðsvegar á landinu eru stundað sjókvíaeldi, einkum á laxi. Eldiskvíar liggja utan netlaga (115 m. frá stórstraumsfjöruborði) en þar enda skipulagsmörk sveitarfélaga og eru sjókvíarnar því utan áhrifasvæðis þeirra og tekjur sveitarfélaga af fiskeldisfyrirtækjum takmarkast við aflagjöld og hafnargjöld sem þau greiða.

Auðlindagjald var síðan lagt á fiskeldisfyrirtæki árið 2019 (lög nr. 89 2019, 27. júní) og með sömu lögum varð til Fiskeldissjóður en í hann rennur svo hluti auðlindagjaldsins en sá hluti er ákveðinn á fjárlögum hverju sinni. Það er því undir ríkisstjórn og fjárþörf hennar komið hvaða upphæðum er ráðstafað í sjóðinn. Sveitarfélög þar sem sjókvíaeldi er stundað geta svo sótt um styrki í þann sjóð en hann styrkir uppbyggingu atvinnulífs, þjónustu, menntunar, menningar, íbúaþróunar, veitna, orkuskipta, hafna og aðstöðu í tengslum við sjókvíaeldi á landi og nýsköpun tengda fyrrgreindum þáttum.

Við fyrstu úthlutun úr Fiskeldissjóði, árið 2021 voru 105 miljónir til úthlutunar og var þeim skipt á milli sveitarfélaga í öfugu hlutfalli við fiskeldið sem stundað er úti fyrir ströndum þeirra. Austurland fékk 70 miljónir í tvö verkefni, Vestfirðir 34 miljónir í þrjú verkefni. Þau verkefni sem hlutu framgang voru uppbygging leikskóla, endurnýjun vatnslagna, fráveituframkvæmdir, tryggja vatnsöryggi og að fjarlægja asbestlagnir. Allt góðar og þarflegar framkvæmdir en þær umsóknir sem ekki hlutu náð fyrir augum stjórnar voru ekki síður í brýn verkefni eins og kaup á bryggjukrana, deiliskipulaga á athafnasvæði og endurbætur á hafnarsvæði.

Sveitarfélögin leggja í vinnu með tilheyrandi kostnaði við að vinna umsóknir því það dugir ekkert minna til en „Ítarleg og sundurliðuð framkvæmdar- og kostnaðaráætlun um þá verkþætti eða verkefni sem sótt er um styrki til.“ Síðan þurfa sveitarfélögin að bíða í óvissu um hvort þessi verkefni fáist fjármögnuð eða ekki og geta ekki gert ráð fyrir þeim í sínum áætlunum fyrr en miðstýrt vald, stjórn Fiskeldissjóðs, fellir sinn dóm um gæði umsóknar og gildi verkefnisins fyrir samfélagið í sveitarfélaginu, íbúana sjálfa. Að vísu, svo sanngirni sé gætt, í tæka tíð til að ná inn í fjárhagsáætlun.

Væri ekki eðlilegra að sveitarfélögin fengju „styrki“ í hlutfalli við framlag fiskeldisins úti fyrir ströndum þess og ráðstöfuðu þeim tekjum eins og öðrum án milligöngu Fiskeldissjóðs og mats á því hvað eru þörf og brýn verkefni í sveitarfélögunum. Að hún gæti í umboði íbúa ráðstafað þessum fjármunum í þeirra þágu? Íbúanna sem starfa við fiskeldið bæði á sjó og í landi, íbúanna sem eiga börn í grunnskóla og leikskóla, íbúanna sem njóta menningarviðburða og allra íbúanna sem þurfa á innviðauppbyggingu að halda og kusu fulltrúa til að fara með þau mál sem þá varða?

Sveitarstjórnafólk í sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað er sammála um að mikilvægt sé að tekjur af atvinnugreininni verði eftir í þeim byggðum þar sem sjókvíaeldi fer fram. Það er sammála um að þær tekjur séu í hlutfalli við magnið sem alið er í kvíum á hverjum stað en öðru gildir um þingmenn, ráðherra og stjórn Fiskeldissjóðs. Vonandi rennur það upp fyrir þeim fyrr en síðar að sveitarstjórnir eru fullfærar um að ráðstafa þessum „styrkjum“ í verðug málefni rétt eins og öðrum tekjum og ef ekki er það íbúanna að veita þeim aðhald. Forsjárhyggja stjórnvalda í úthlutun úr Fiskeldissjóði er vægast sagt undarleg ósköp.

Hildur Þórisdóttir oddviti Austurlistans
Eyþór Stefánsson 2. sæti Austurlistans
Ásdís Hafrún Benediktsdóttir 3. sæti Austurlistans
Jóhann Hjalti Þorsteinsson 5. sæti Austurlistans

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.