Þjóðkirkja og biskup
Um þessar mundir hlotnast ríflega 2.000 meðlimum þjóðkirkjunnar, vígðum þjónum, sóknarnefndarfólki og fulltrúum kjörnum á aðalfundum sókna, sá heiður að velja Þjóðkirkjunni nýjan biskup. Þetta er ábyrgðarhlutverk og ég treysti því að allir sem hafa kosningarétt ákveði að nýta hann, nú í annarri umferð kjörsins þar sem tveir tilnefndir fulltrúar standa eftir.Ég er ekki einn þeirra sem hef kosningarétt, en ég er meðlimur í Þjóðkirkjunni, tek þátt í starfi hennar og hún skiptir mig verulegu máli. Þess vegna skiptir það mig einnig máli hver velst til þess að leiða kirkjuna í embætti biskups og ég hef á því skoðun.
Ég hef þekkt til séra Guðmundar Karls Brynjarssonar frá því ég var unglingur. Ég hef séð til hans vinna með ungu fólki í æskulýðsstarfi, ég hef fylgst með honum úr fjarlægð vinna að uppbyggingu fádæma öflugs kirkjustarfs í Lindasókn í Kópavogi, starfs sem hófst í bráðabirgðahúsnæði á lóðinni þar sem kirkjan var enn ekki risin. Ég hef nýtt sjálfur og notið fræðslu- og skemmtiefnis fyrir börn sem hann hefur staðið fyrir gerð á og sýnir svo vel hvernig honum er umhugað um að kirkjan nái til allra aldurs- og þjóðfélagshópa.
Fyrir mér er Gummi Kalli eins og kirkjan sem ég vil tilheyra. Hann er einlægur, kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Hann hefur mætt áskorunum og sigrast á þeim með trúna á Jesú Krist sér til halds og trausts. Hann er ófeiminn við að vera sá sem hann er, sama hvað öðrum finnst. Þannig á kirkjan að vera og þannig skulum við gera hana.
Ég hvet öll þau sem hafa kosningarétt 2.-7. maí til að kjósa séra Guðmund Karl Brynjarsson í embætti biskups Íslands.