Orkumálinn 2024

Til að Seyðisfjörður eigi vor í vændum

Hugur allra Seyðfirðinga er heima, þrátt fyrir að mannbjörg og slysaleysi er höggið gríðarlegt. Það þarf að bretta upp ermar, sameinast um framtíðarsýn og uppbyggingu byggðar og samfélagsins. Því hendi ég hér fram smá vangaveltum.

Bærinn, sem var drifkraftur verslunar og samskipta við útlönd um þar síðustu aldamót, geymir merka sögu um byggingarlist og hugsjónir þess tíma. Á síðustu árum hefur Seyðisfjörður fest sig í sessi sem menningar- og ferðamannabær. Að koma heim á heitum sumardögum er dásemdin ein, þar sem fjölþjóðlegt mannlíf nýtur sín í skjóli tignarlegra fjallanna sem umvefja byggðina með logni á fögrum sumarkvöldum. Fólk upplifir fegurðina í stillunni við ánna og nýtur lífsins.

Sagan og menningin sem bærinn hefur að geyma á að vera grunnur að framtíðaruppbyggingu Seyðisfjarðar. Fegurðin í kringum bæjarstæðið er einstök, hana ber að fanga í framtíðarskipulagi bæjarins út frá lóninu og upp með ánni. Náttúran er líka einstök til útiveru, fjallgöngur, fjörðurinn lygn, lognið algjört, sumarkvöldin þar sem austfjarðaþokan sveipar hulu sinni yfir bæinn.

Eftir hörmungarnar sem gengu yfir í desember er verkefni stjórnenda sveitarfélagsins, með íbúum og Íslendingum öllum að móta framtíðarskipulag og stefnu byggðarinnar með áherslu á sóknarfærin í ferðaþjónustu og menningu bæjarins. Atvinnusköpun tel ég að muni snúast um það í framtíðinni, vöxtur í komu skemmtiferðaskipa og fjölgun ferðamanna var mikil fyrir Covid, og mun skila sér til baka.

Undirlendi er ekki til staðar fyrir stórar verksmiðjur eða vinnslur, það er vitað mál. Seyðfirðingar eiga að skoða með opnum hug þau tækifæri sem skapast til atvinnusköpunar en það þarf vissulega að samrýmast þeirri framtíðarsýn sem íbúar ætla að móta.

Gefið ykkur tíma til að fara yfir framtíðina, móta skipulag byggðarinnar með vísun í söguna og menninguna. Nú er tækifærið til að þétta byggðina í kringum Lónið, Lónsleiruna og upp með ánni. Ekki gera þetta einhvern vegin, fáið fagmenn til að teikna heildarskipulag þar sem koma má sögunni fyrir með endurbyggingu menningarverðmæta sem nú fóru og annarra sem áður hafa horfið. Hvar myndum við vilja sjá Wathne-húsin endurbyggð, hvar á Berlín að standa, Framhús, Dagsbrún, Breiðablik og svo fleiri sögufræg hús sem hafa horfið, t.d. gamla bátahúsið? Látið hanna bæinn með tilvísun í söguna, þar mun styrkleikinn liggja.

Þetta mun vissulega kosta meira en að byggja hefðbundin hús nútímans. Því þarf að finna lausn á fjármögnun og stuðningi við einstaklinga sem vilja taka þátt í að móta þessa framtíð. Látið uppbygginguna hjálpa byggðinni að vaxa. Þessi byggð mun draga til sín fólk, en ekki sá byggingarstíll sem fólk getur séð í hverfum höfuðborgarsvæðisins.

Áfram Seyðfirðingar!

Höfundur er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður á Seyðisfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.