Orkumálinn 2024

Til hvers að kjósa?

Í dag, laugardaginn 14. maí, kjósum við fulltrúa til að leiða sveitarfélagið okkar næstu fjögur ár.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar er skipuð 9 bæjarfulltrúum sem fara með stjórn sveitarfélagsins. Þessir 9 bæjarfulltrúar eru fólk úr stjórnmálaflokkum sem bjóða sig fram á framboðslista.

Bæjarstjórn mótar stefnu bæjarins í ýmsum málaflokkum og fer með yfirstjórn stofnanna á vegum sveitarfélagsins. Tekur ákvarðanir um hvernig á að reka það, hvernig uppbyggingu skal háttað og hvernig best er að forgangsraða. Bæjarstjórn kýs síðan fulltrúa í ráð, nefndir og stjórnir til að hafa yfirumsjón með ákveðnum verkefnum. Einnig hefur bæjarstjórn sér til ráðgjafar fullt af fagfólki sem hægt er að leita til um hin ýmsu mál.

Öll borgum við skatta sem eru gjöld til samfélagsins fyrir það sem við notum sameiginlega. Til dæmis fara þau í að reka leik- og grunnskóla, bókasöfn, íþróttamannvirki, snjómokstur, félagsþjónustu, að hirða rusl, undirbúning lóða, öldrunarþjónustu, fegra bæjarmyndina, veitur og svo margt fleira.

Allt þetta skiptir máli í okkar daglega lífi og hvernig þessum málum er háttað hefur mikil áhrif á samfélagið. Þess vegna er mikilvægt og nauðsynlegt að mæta á kjörstað og kjósa. Nýta okkar rétt til að velja þau sem við treystum best til að halda utan um þessi mál.

Nú eru fjórir listar sem bjóða fram í Fjarðabyggð. Á öllum þessum listum er að finna gott fólk sem vill gera sitt besta fyrir sveitarfélagið okkar, en þó með mismunandi skoðanir á því hvaða áherslur séu mikilvægastar fyrir samfélagið okkar.

En af hverju að kjósa Fjarðalistann?

Fjarðalistinn er eina framboðið í Fjarðabyggð sem ekki er með stóran stjórnmálaflokk á bakvið sig. Við störfum aðeins í og fyrir Fjarðabyggð - því okkur þykir vænt um samfélagið okkar. Það hefur orðið töluverð endurnýjun á lista Fjarðalistans og í raun mætti tala um kynslóðaskipti. Sum okkar eru að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum, en önnur hafa meiri reynslu af slíku, en hjörtu okkar slá í takt þegar kemur að samfélaginu okkar og við brennum fyrir framtíð þess og að gera því gagn. Það er ástæðan fyrir því að við bjóðum okkur fram í störf bæjarfulltrúa. Við viljum réttlátt samfélag þar sem öll hafa jöfn tækifæri og bæði fólk og umhverfi eru metin að verðleikum.

Nú á síðasta degi kosningabaráttu erum við þakklát og auðmjúk yfir þeim viðbrögðum sem við höfum fengið frá ykkur íbúum. Við erum þakklát þeim sem mættu á fundina okkar og stefnuþingið - en stefnan okkar er mótuð upp úr áherslum sem íbúar, ekki síður en við sjálf, koma að því að móta. Takk fyrir samtölin, stuðninginn, öll góðu ráðin og hvatninguna. Án ykkar væri Fjarðalistinn ekki það sem hann er. Með ykkar stuðningi getum við leitt Fjarðalistann til sigurs og unnið áfram saman að því að gera Fjarðabyggð enn betri.

Að lokum viljum við biðja ykkur öll að minnast þess hve mikils virði það er að hafa kosningarétt. Það er ekki sjálfgefið og því miður hefur fólk víða ekki þau mikilvægu réttindi að geta kosið í lýðræðislegum kosningum. Að hafa eitthvað um framtíð samfélagsins að segja eru réttindi sem við álítum kannski sjálfsögð, en eru það ekki. Fólk hefur barist fyrir að öðlast þau og víða á sú barátta langt í land.

Við viljum því fyrst og fremst hvetja ykkur til þess að mæta á kjörstað og láta ykkar skoðun í ljós. Að nýta kosningaréttinn er okkar mikilvægasta verkfæri til þess að hafa áhrif á framtíð samfélagsins okkar.

Gleðilegan kjördag!

Höfundar skipa efstu fimm sæti Fjarðalistans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.