Tíminn er núna!

Í ágúst 2021 hófst kennsla af fullum þunga í Háskólagrunni Háskólans í Reykjavík (HR) á Austurlandi. Það var ánægjulegt að fylgjast með nemendum sem saman voru komnir í kennslustofu á Reyðarfirði til að takast á við nýjar áskoranir sem munu leiða af sér jákvæð tækifæri fyrir þá í lífinu. Í boði voru tveir grunnar; tölvunarfræði annars vegar og verk- og tæknifræði hins vegar.

Það má segja að námið sé staðbundið með stafrænum lausnum og hugsað til þess að koma til móts við þarfir nemenda og fyrirtækja á Austurlandi. Um er að ræða aðfararnám fyrir háskóla þar sem nemendur geta undirbúið sig fyrir nám í verk- og tæknifræði eða tölvunarfræði. Þetta er í fyrsta skipti sem sérhæft aðfararnám er kennt með þessum hætti á Austurlandi. Kennslan fer fram í gegnum fjarfundabúnað og dæmatímar eru kenndir í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði.

Að baki liggur marga ára vinna ólíkra aðila sem hafa séð tækifæri til að hækka menntunarstig á Austurlandi. Þannig hafa Austurbrú, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri, ásamt fyrirtækjum og sveitarfélögum á Austurlandi, með stuðningi menntamálaráðherra, unnið þétt saman að útfærslu náms sem hentar staðarháttum á svæðinu og er til þess fallið að styðja við öflugt atvinnulíf. Vinnan hélt áfram og Austurbrú átti samtal við fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi með það að markmiði að fá fram þarfir og óskir um nám í fjórðungnum. Þetta samtal var mjög þarft og skilaði okkur mikilvægum upplýsingum fyrir áframhaldandi vinnu.

Vissulega stundar nú fjöldi manns búsettur á Austurlandi fjarnám við ýmsa háskóla og brýnt er að bæta framboð á fjarnámi og í sumum greinum er einnig nauðsynlegt að tryggja staðbundið nám eða staðbundinn stuðning. Það er því fagnaðarefni að nú er að bætast við framboð á staðbundnu námi á Austurlandi í samræmi við þarfir atvinnulífs og íbúa.

Nú liggur fyrir að háskólagrunnurinn verður áfram í boði í haust en einnig tölvunarfræði til B.S. gráðu og diplómanám í iðnfræði. Námið í tölvunarfræði er sett upp sem staðnám með stafrænum stuðningi. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa möguleika á að stunda háskólanám í heimabyggð og um leið að byggja upp til framtíðar, mikill kostnaður getur fylgt því að flytja búferlum ásamt því raski sem fylgir. Við viljum hvetja öll ykkar sem eru að huga að námi í þessum greinum að kynna ykkur málið og sækja um. Umsóknarfrestur er til 5. júní fyrir grunnnámið og 15. júní fyrir háskólagrunninn.

Allar upplýsingar eru á heimasíðu háskólans í Reykjavík. https://www.ru.is/umsoknir/

Kynningarfundur verður þriðjudaginn 17. maí í fróðleiksmolanum á Reyðarfirði og við viljum hvetja sem flesta að mæta og kynna sér málin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.