Tökum áskoruninni

Síldarvinnslan í Neskaupstað reið á vaðið á dögunum og sendi Mæðrastyrksnefnd meira en fjögur tonn af sjófrystri ýsu til að leggja í matargjafir til þurfandi fólks. Nú hanga uppi í fyrirtækjum og stofnunum á Egilsstöðum áskoranir til veiðimanna og annars góðs fólks um að grafa úr frystikistum sínum kjöt og fisk og gefa Lionsklúbbnum Múla til úthlutunar fyrir jólin.

Vonandi verður þetta til þess að skapa einhvers konar bylgju um allt Austurland, þar sem fyrirtæki og einstaklingar finna hjá sér hvöt til að leggja hönd á plóg og veita nauðstöddum af örlæti sínu.

,,Við viljum hvetja fyrirtæki sem eru aflögufær til að styðja við bakið á góðgerðarstofnunum landsins,“ sagði framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.

Framtak Síldarvinnslunnar og Lionsklúbbsins er aðdáunarvert. Líkt og einn Lionsfélaga sagði við mig fyrr í vikunni þá skapar þetta góða fordæmi þá hugsun hjá manni að stíga einnig fram til góðra verka. Þeir sem vilja gefa fryst kjöt eða fisk til Lionsklúbbsins Múla geta komið matvælunum til Flytjanda á Egilsstöðum, sem mun geyma þau endurgjaldslaust í frystigeymslu uns Lionsfélagar úthluta þeim í heimabyggð. Í þeim efnum munu þeir fara að ábendingum félagsþjónustu svæðisins. Flytjandi flutti einnig fiskinn fyrir Síldarvinnsluna ókeypis. Gott hjá flutningafyrirtækinu.

 

Ég leyfi mér að hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að taka þessari áskorun.  Við erum langflest aflögufær um eitthvað. Mikið eða lítið; það skiptir ekki höfuðmáli, heldur að leggja þeim samborgurum okkar sem á þurfa að halda lið.

Njótið svo aðventunnar og lýsið hús ykkar kreppufrí, nóg er nú samt hallærisáreitið utan veggja.

 

Steinunn Ásmundsdóttir

(leiðari 48. tbl. Austurgluggans)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.