Tónleikar: Græðlingar, þjóðarblóm og önnur kristileg kærleiksblóm

Með hækkandi sól breiða blómin út faðma sína og austfirska tónleikasumarið byrjar af alvöru. Austurglugginn brá sér á tónleika Megasar og Senuþjófanna á Norðfirði í gærkvöldi og krasstúr sem stoppaði á Seyðisfirði á laugardag.

 

ImageMegas útskýrði einhverju sinni langlífi sitt með orðunum „það er því ég fer alltaf út á næst seinustu stoppistöð“.  En hvorki tónlist Megasar né tónleikar stoppa nokkurn tíman.

Á tónlistarári, þar sem útlit er fyrir að minna úrval verði af erlendum listamönnum á Íslandi en verið hefur, er nauðsynlegt að horfa yfir hvað grær í íslensku tónlistarsenunni. Þar stendur Megas líkt og þjóðarblómið, holtasóley, sem blómstrar jafn falleg á hverju vori.

Á tónleikum Megasar og Senuþjófanna í Egilsbúð á þriðjudagskvöld voru spiluð lög sem náðu yfir um fjörutíu ára feril Megasar. Allt frá Spáðu í mig, sem kom út á fyrstu plötunni Megas árið 1972 yfir í hans eigin útgáfu af Stína, Ó Stína af Á morgun frá í fyrra.

ImageÁ tónleikum Megasar er aldrei slakað á. Eftir rólegra fyrra sett, þar sem Megas gaf sér stöku tíma til að senda misskiljanlegar pillur út í salinn, var allt gefið í botn í seinna settinu og engin hlé gerð milli laga. Þegar eitt var að klárast var gítarleikari byrjaður á frumstefi þess næsta. Líkt og á Bræðslunni fyrir tveimur árum þegar Megas og Senuþjófarnir spiluðu sleitulaust í um tvo tíma.

Þannig var haldið áfram þar til endað var á alvöru rokkútgáfu af Stínu, en sú útsetning, ásamt Tveimur stjörnum, stóð upp úr í seinna settinu. Í báðum lögunum nutu Senuþjófarnir sín vel en orgelleikur Sigurðar Guðmundssonar og gítarleikur Guðmundar Péturssonar, eins færasta gítarleikara landsins, gefa lögum Megasar aukinn kraft.

Megas geymdi þó það besta þar til síðast. Í uppklappinu spilaði hann Krókódílamanninn og tvö lög af plötunni Í Bleikum náttkjólum; Við sem heima sitjum og Paradísarfuglinn.

ImageÍ lokin stóðu Megas og Senuþjófarnir fremst á sviðinu á meðan áhorfendur klöppuðu. Varla bros, engar hneigingar. Það kallar Megas „outstanding“, það er „að standa áhorfendur út,“ bíða þar til sá seinasti er hættur að klappa og labba síðan út af sviðinu.

Gjörningur við hæfi – því Megas er sannarlega „átstending.“

--

Græðlingarnir í tónlistarflórunni mega vel taka sér stóru sóleyna til fyrirmyndar. Á laugardag komu hljómsveitirnar Reykjavík! og Sudden Weather Change, fram á tvennum tónleikum. Á hinum seinni, á Seyðisfirði, komu einnig Miri og Létt á bárunni fram með þeim.

Image Tónlistarlega, og jafnvel frammistöðulega, stóð Miri þar upp úr. Drengirnir ættu líka að vera að nálgast sitt besta form. Þeir eru á leið í hljóðver í sumar og nýttu tækifærið til að spila nokkur lög sem þeir hafa ekki spila nokkur lög sem þeir hafa sjaldan spilað á tónleikum eystra áður.

Image Létt á bárunni er afsprengi þeirra Svavars Péturs Eysteinssonar og Berglindar Häsler, sem oft eru kennd við Skakkamanage. Saman minna þau helst á hina bandarísku White Stripes, þar sem konan trommar og karlinn spilar á gítar og syngur. Tónlist hinna íslensku er þó öllu súrari, tilraunakenndari og fróðlegt væri að vita hvað Gylfa Ægissyni fyndist um útgáfu þeirra á Stolt siglir fleyið mitt . Í Herðubreið datt að minnsta kosti allt í dúnalogn þegar Svavar Pétur byrjaði á fyrstu línu lagsins og salurinn beið eftir hvað næsta skrefi.

Reykjavík! hefur orð á sér fyrir að vera ein brjálaðasta tónleikasveit landsins. Vissulega reyndu þeir að keyra í brjálæðið en salurinn dansaði ekki með þeim. Frammistöðu þeirra sjálfra verður þó vart kvartað yfir, þetta var einhvern megin ekki þeirra kvöld.

Hljómsveitin Sudden Weather Change hefur fengið mikið lof fyrir tónlist sína seinustu mánuði en fimmmenningarnir náðu sér ekki á strik á Seyðisfirði og reistu ekki þann þétta hljóðmúr sem þeir eiga að geta.

En munum að þessar hljómsveitir eru að stíga sín fyrstu skref meðan Megas hefur verið að frá falli Viðreisnarstjórnarinnar. Þær eiga því nóg inni. Enda spretta kristilegu kærleiksblómin í kringum hitt og þetta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.