Trúin flytur fjöll og menn

Heimskur er heimaalinn hundur segir máltækið og ég hef alltaf verið sannfærð um að það er tóm vitleysa. Ekki á upplýsingaöld. Líklega myndi þó fátt hreyfast úr stað ef menn færu ekki tvist og bast um veröldina með hugmyndir sínar og framkvæmdir. Sumt gott, en annað talsvert verra.

Því er ég nú að skrifa þetta að til mín hrataði tilkynning um að góð hjón á Egilsstöðum séu á leiðinni til Afríkulandsins Kenía sem kristniboðar. Þau eru kannski fyrstu austfirðingarnir sem fara gagngert til Afríku í trúboð.

 

 

Mér þykir satt að segja magnað að þessi ágætu hjón skuli hafa svo sterka sannfæringu fyrir að þeirra trú sé hin eina sanna trú sem allir eigi að tileinka sér. Ég verð að setja spurningamerki við það, svona í sögulegu samhengi.  Hitt þykir mér þó ekki síður merkilegt og raunar virðingarvert, að þau skuli tilbúin að skipta um lífsmáta fyrir sig og börnin sín og boða það sem þau trúa svo heitt á í annarri heimsálfu, þar sem flestir hlutir hafa önnur formerki en hér á Vesturlöndum. Kenía er jú í sárri nauð hvernig sem á það er litið. Ég efa ekki að þessi ágætu hjón eiga eftir að rétta mörgum nauðstöddum hjálparhönd og vil óska þeim alls góðs. Þeim var haldin kveðjusamkoma í Egilsstaðakirkju á mánudagskvöldið, þar sem Keith Reed og Ásta B. Schram, fyrrverandi Héraðsbúar og tónlistarmógúlar Austurlands músiseruðu. 5. júlí fer svo fram kristniboðavígsla þeirra í Dómkirkjunni í Reykjavík af biskupi Íslands.

   

Ég óska hjónunum sannarlega fararheilla og vona að þau geti fært einhverjum íbúum Kenía von og kærleika. Fært þeim trú á að einhvern tímann komist á friður í sköpunarverki guðs og jöfnuður meðal manna, þó ekki væri nema í aðgangi að vatni, fæðu, læknishjálp og sjálfsþurftarbúskap. Ég óska þess enn fremur að senn komi að því að við í vestrænum ríkjum viðurkennum Afríku sem þá auðugu heimsálfu sem hún er, hættum að ræna hana með hægri hendinni um leið og við sendum þangað hálfgildings neyðaraðstoð með þeirri vinstri, hættum að snúa blinda auganum að þeim spilltu stjórnarherrum sem arðræna álfuna og stuðlum að því með skilvirkari hætti en verið hefur að hjálpa henni til sjálfstæðis. Meðal annars frá okkur.

 

Blessi ykkur.

 

Steinunn Ásmundsdóttir.

 

 

 

(Leiðari Austurgluggans 3. júlí 2009)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.