Tryggjum saman öfluga rödd
Hvað stýrir fjármagni í uppbyggingu um allt land?Landsbyggðin er gjöful og með gríðarlega verðmætasköpun. En einhvern veginn verða málefni landsbyggðarinnar oftast undir þegar kemur að því hvert fjármunir frá hinu opinbera eigi að rata þegar hugað er að uppbyggingu. Viðmiðið, sem heyrist oftar en ekki, eru rök um of fáa íbúa á ákveðnu landsvæði til að réttlæta ákveðna uppbyggingu.
Oft heyrist einnig skýring frá hinu opinbera að ósamstaða sé í landshlutanum sem er notað sem átylla til að hægja á eða stoppa ferli sem farið er í gang. Sveitarstjórnarfólk horfir einnig mögulega of þröngt yfir, einungis á sitt sveitarfélag þegar horft er til tækifæra og uppbyggingar. Þessi rök hafa fengið að fljóta áfram of lengi og sveitarstjórnarfólk verður að sameinast í stóru áherslunum til að komast hraðar í uppbyggingu.
Sameiginleg öflug rödd
SSA, Samband sveitarfélaga á Austurlandi er og á að vera sameiginleg öflug rödd hjá sveitarfélögum á Austurlandi. Þegar ég kom ný inn í pólitík á sínum tíma fannst mér þetta öflug aðferðafræði sem ætti að koma okkur alla leið með allar okkar áherslur. En svo komst ég að því að flestar bókanir hjá SSA hafa verið eins í fjölda ára eða jafnvel yfir áratug.
En hvað veldur því að við komumst ekki hraðar áfram með okkar áherslumál? Eins og margir verða varir við þá breytast stundum raddir sveitarstjórnarmanna eftir formlegan fund SSA. Farið er að tala niður ákveðnar bókanir sem voru samþykktar samhljóða. Kemst eitthvað sveitarfélag áfram með því að sýna ekki bókunum SSA stuðning?
Tryggjum samstöðu
Áherslan á sameiningu sveitarfélaga í dag er einmitt sú að sveitarfélög verða stærri, með faglegri þjónustu, hagkvæmari rekstur og að þau uppskeri öflugri rödd sem þarf til að fara alla leið með þeirra málefni.
Þetta er mikilvægt, að við séum hávær, þorum að taka pláss og sýnum samstöðu því þannig komumst við alla leið. Tryggjum að rökin með þá verðmætasköpun sem fer fram á svæðinu séu gild en ekki fjöldi íbúa. Þar getum við Austurland talað sem eitt svæði því Austurland er eitt atvinnu og þjónustusvæði og mikilvægt er að allir komist sinnar leiðar allan ársins hring.
Áherslan hefur verið mest á öflugar samgöngur um allt land. Þær eru dýrar og þegar þær komast á samgönguáætlun þá verðum við sem heild að styðja þær alla leið en ekki tala gegn þeim. Við eigum einnig að fara fram á hraðari uppbyggingu í þeim málum og sérstaklega byggt á þeirri nýju aðferðafræði að íbúar greiði hálfa framkvæmdina með veggjöldum.
Alþingi
Nýverið komst ég inn á Alþingi fyrir hönd Norðausturkjördæmis. Jómfrúarræðan mín snérist um að vera öflug rödd fyrir uppbyggingu á landsbyggðinni. Ég er málsvari landsbyggðarinnar og ég komst inn á Alþingi með umboði þeirra sem studdu mig, ég er þeim þakklát og mér ber skylda til að fara alla leið með áherslumál sem brenna á þeim.
Þessi skrif mín eru til okkar allra í landshlutanum, íbúa, starfandi sveitarstjórnarfólks og svo komandi sveitarstjórnarfólks í kjölfar sveitarstjórnarkosninga þann 14. maí. Pössum umræðu okkar, veljum að standa saman, sameinum krafta okkar og tryggjum öfluga rödd sem kemur okkur lengra og hraðar í uppbyggingu en hefur verið hingað til.
Höfundur er formaður Byggðaráðs Múlaþings og varaþingmaður