Títuprjónshausinn Austurland

Nú er mál til komið að togstreitu milli Fjarða og Héraðs linni. Löngu er tímabært að fólk uppræti úr sér hinn mergsmogna, úrelta hugsunarhátt að einn sé afæta af öðrum, eitt byggðarlag afæta af öðru, einn landshluti afæta af öðrum landshluta. Hafi menn ekki ekki áttað sig á því ennþá, er hver að verða síðastur að grípa þau merku sannindi að við búum á einni jörð, hver maður er stakur, sundruð erum við ekkert og sameinuð allt.

Það fer hreinlega um mig þegar ég skynja hversu djúpstætt sundurlyndið er enn milli margra íbúa Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs. Einhver rótgróinn illyrmislegur tónn í sumu fólki, hálfkveðnar vísur, börnum er gefið þetta vonda meðal í hálfkæringi og alast sum hver upp við ósómann. Eins og unglingarnir sem aka yfir í ,,hitt“ byggðarlagið og henda ruslinu sínu hlæjandi út um bílgluggann. Eins og foreldrar á kappleik barna sinna og góla ,,látt‘ann finna fyrir því helv. (ljótt uppnefni tengt ,,hinu“ sveitarfélaginu).  Við gegn ykkur. Þið gegn okkur.

Ég skrifa hér kvitt og klárt að ég er fyrst og síðast Austfirðingur. Og ansi hreint stolt af því að búa í þessum frábæra landshluta sem á öll tækifæri og alla auðlegð, hvort sem er í fólki eða náttúru. En ég dauðskammast mín þegar utanaðkomandi fólk skellihlær og hefur í flimtingum hvað við séum klaufaleg að standa í svona hrepparígsbulli á þessu pínulitla svæði, sem er snöggtum minni en títuprjónshaus í ölllu samhengi hlutanna. Við íbúarnir eigum eftir að vinna heimavinnuna okkar; engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

                                                                                                             Steinunn Ásmundsdóttir

(Leiðari Austurgluggans 19. febrúar sl.)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.