Tíu ára farsælt samstarf ferðaþjónustunnar undir merkjum Markaðsstofu
Markaðsstofa Austurlands fagna tíu ára starfsafmæli sínu um þessar mundir. Af því tilefni verður hinn 7. mars næstkomandi blásið til afmælishátíðar. Í nýju fréttabréfi Markaðsstofu Austurlands skrifar Skúli Björn Gunnarsson, stjórnarformaður MA, pistil í tilefni afmælisins. Hér er jafnframt birt dagskrá afmælishátíðarinnar.
,,Þann 7. febrúar sl. voru liðin tíu ár frá því að 45 manns komu saman í golfskálanum á Ekkjufelli og stofnuðu ferðamálafélag á svæðinu frá Langanesi að Streitishvarfi í Breiðdal. Þetta var lokahnykkurinn í verkefni SSA, Ferðamálasamtaka Austurlands og Þróunarstofu Austurlands. Síðar sama ár fékk félagið heitið Markaðsstofa Austurlands og hefur allar götur síðan leitt samstarf í ferðamálum, með aðild sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila, á svæði sem í dag nær frá Vopnafirði suður í Hvalsnesskriður.
MA fagnar því tíu ára afmæli um þessar mundir og í tilefni af því verður efnt til afmælishátíðar samhliða aðalfundi þann 7. mars nk. á Hótel Héraði. Þá verður einnig svipt hulunni af nýju kjörorði og merki fyrir ferðaþjónustu á Austurlandi sem er fyrsti áfanginn í stefnumótun sem staðið hefur yfir frá því á síðasta ári. Hér með eru allir sem hafa látíð og láta sig varða ferðamál á Austurlandi hvattir til að mæta þann 7. mars og taka þátt í afmælishátíðinni. Á tímamótum er gott að fara ofan í saumana á skipulagi og stefnu og taka kúrsinn upp á nýtt. Í því er unnið af krafti þessar vikurnar, bæði af starfsmönnum og stjórn. Eitt af stóru markmiðunum núna er að efla innra starf MA og hluti af því er að hefja að nýju útgáfu fréttabréfs. Jafnframt verður komið upp sérstakri gátt á vefnum east.is fyrir félagsmenn með aðgengi að fundargerðum og ýmsu öðru þörfu efni.
Katla Steinsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri MA í janúar sl. eftir rúmlega fjögurra ára farsælt starf. Undir hennar stjórn var rekstri MA snúið til betri vegar og starfsemin efld. Eru hennar hér með
færðar þakkir fyrir velunnin störf. Nýr framkvæmdastjóri er Ásta Þorleifsdóttir sem kemur inn í starfið með margháttaða reynslu, ekki síst á sviði náttúrutengdrar ferðamennsku. Hún mun á næstu vikum
reyna að heimsækja sem flesta ferðaþjónustuaðila á svæðinu en einnig er um að gera að líta við á skrifstofu MA í Miðvangi 2-4 (3. hæð) og hitta Ástu og aðra starfsmenn.
Markaðsstofa Austurlands er elsta markaðsstofa ferðamála en þetta austfirska módel af samstarfi
ferðaþjónustuaðila og sveitarfélaga hefur nú verið tekið til fyrirmyndar um allt land. Markaðsstofurnar eru orðnar sjö talsins og á síðustu mánuðum hefur verið komið á öflugu samstarf milli þeirra og meiri samvinnu við Ferðamálastofu.
Þeir erfiðu tímar sem nú vofa yfir geta leitt til sundrungar og samstöðuleysis, að hver reyni bara að
bjarga sjálfum sér. Slíkt má ekki gerast því að sem endranær náum við lengra með öflugu samstarfi
eins og fyrstu tíu ár Markaðsstofu Austurlands hafa sannað."
Skúli Björn Gunnarsson, stjórnarformaður Markaðsstofu Austurlands
Afmælishátíð Markaðsstofu Austurlands
Dagskrá hátíðarinnar 7. mars 2009
kl. 10.00 - 12.00 AÐALFUNDUR Markaðsstofu Austurlands, Hótel Héraði, Egilsstöðum
Hefðbundin aðalfundarstörf
Stefnumótun kynnt, nýtt merki og kjörorð borið undir fundinn
kl. 12.00 - 12.45 Léttur hádegisverður
kl. 12.45 - 14.45 VINNUFUNDUR vegna nýrrar stefnu í ferðamálum
kl. 15.00 - 18.00 AFMÆLISMÁLÞING
Ávarp ráðherra
Ávarp formanns, Skúla Björns Gunnarssonar.
Stofnun Markaðsstofu Austurlands rifjuð upp
Ferðaþjónusta á Austurlandi fyrir 10-20 árum
Ferðaþjónusta á Austurlandi í dag og framtíðarsýn
Kaffihlé
Niðurstöður úr ferðamannakönnun 2008
Stefnumótun, nýtt merki og kjörorð Austurlands kynnt
Opnað fyrir umræður og ávörp gesta
Málþingsstjóri: Ásta Þorleifsdóttir framkvæmdastjóri Markaðstofu Austurlands
kl. 18.00 Fordrykkur
kl 19.00 Hátíðarkvöldverður með skemmti- og tónlistardagskrá
Frumkvöðullinn og Kletturinn afhent
Veislustjóri Magnús Már Þorvaldsson