Um Hollvinasamtök heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði
Hollvinasamtök heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði (HHF) voru stofnuð stofnuð fyrir 17 árum og hafa látið margt mjög gott af sér leiða. Frá árinu 2015, þegar samtökin voru endurreist eftir að hafa legið í dvala um nokkurra ára skeið, hefur HHF lagt til um 17.500.000 kr. í formi tækja, umbúnaðar, ýmissa gjafa auk vinnuframlags.Starfsemi HHF undanfarin ár hefur mótast mjög mikið af Covid-19 faraldrinum. Engum stórum fjáröflunum hefur verið hrundið af stað. Gjafir til heilbrigðisstofnana hafa því verið í lágmarki undanfarið en þó má nefna kaup á pottablómum, jólaskrauti og vatnsvélum fyrir Dyngju.
Eini fasti tekjustofn HHF eru félagsgjöld sem hollvinir greiða. Félagsgjöldin eru hófleg, 3.000 kr. á ári. Mikilvægt er að reyna að fjölga hollvinum eins og kostur er og skora ég á ykkur, lesendur góðir, að fá vini og vandamenn til að ganga til liðs við samtökin.
Nýtt skattaumhverfi félaga á almannaheillaskrá tók gildi 1. nóvember síðastliðinn um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla).
HHF hafa fengið staðfestingu um skráningu á almannaheillaskrá Skattsins vegna starfsemi til almannaheilla. Fyrir okkur þýðir það að aðilar sem styrkja HHF geta nú fengið frádráttarheimild sem kemur til lækkunar á útsvars- og tekjuskattsstofni.
Einstaklingar utan rekstrar geta fengið frádráttarheimild sem nemur fjárhæð gjafa, þó að hámarki 350 þúsund kr. á ári og sambúðarfólk geta fengið alls 700 þúsund kr. í frádrátt.
Atvinnufyrirtæki geta fengið frádráttarheimild sem nemur fjárhæð gjafa, þó að hámarki 1,5% af rekstrartekjum á viðkomandi ári.
Gjafir samtals undir 10.000 kr. á ári veita ekki frádráttarrétt, en ekkert lágmark er á fjárhæð hverrar gjafar.
Vonumst við hjá HHF að þessar lagabreytingar muni hafa áhrif til góðs á starfsemi samtakanna.
Tökum höndum saman og styrkjum starf HHF, okkur til hagsbóta.
Öll fjárframlög eru vel þegin og munu nýtast til góðra verka í þágu heilbrigðisþjónustu:
Reikningur HHF er 305-13-302001, kt. 660805-2060.
HHF - félag til almannaheilla
Höfundur er formaður HHF.