Um skemmtiferðaskip og þeirra fylgifiska

Tíðrætt hefur verið undanfarið um komur skemmtiferðaskipa til Íslands og sér í lagi brennisteinsmengun sem þeim fylgir.

Sérstaklega vakti athygli mína sá samanburður RÚV að öll losun skemmtiferðaskipa við Ísland væri jafn mikið og eins og hálfsmánaðar losun hjá álverinu í Straumsvík, eða 13% af árslosun. Sem sagt álverið er að losa níu sinnum meira á ári en öll þessi skemmtiferðaskip en það þykir ekkert tiltökumál.

En nóg um það, eins og komið hefur fram í viðtölum við hafnarstjóra bæði Hafnasamlags Norðurlands og Faxaflóahafna er unnið látlaust að breytingum og stefnan tekin á landtengingar fyrir skipin. Um er að ræða gríðarlega stórt og kostnaðarsamt verkefni og ljóst er að yfirvöld þurfa að koma að þessu verkefni með aukinni orkuframleiðslu ef gerðar verða kröfur um almenna rafvæðingu. Kostnaður við orkuöflun ætti svo að enda hjá notandanum, í þessu tilfelli skipinu, því þau munu kaupa orkuna. Skipafélögin sjálf eru mjög meðvituð um kröfur samfélagsins og eru nýjustu skipin öll búinn besta mögulega búnaði til hreinsunar á útblæstri. Einnig eru skipafélögin að færa sig í auknum mæli yfir í LNG eða rafdrifin skip.

Nú geri ég mér grein fyrir því að ég er sjálfur ekki alveg hlutlaus í þessu máli enda hafnarstarfsmaður út á landi. Í minni höfn verða til mörg störf yfir sumartímann og miklar tekjur verða til fyrir hafnarsjóð. Þetta gerir okkur mögulegt að breyta þeirri aðstöðu sem við getum boðið upp á. Seyðisfjarðarhöfn er að vinna að landtengingu minni skipa og ferjunnar Norrönu sem kemur hingað vikulega. Þessi framkvæmd yrði ekki að veruleika nema fyrir þær tekjur sem skemmtiferðaskipin skila af sér og ef allt gengur að óskum verður mögulegt að tengja fyrstu skipin við landrafmagn á næsta ári. Líkt og aðrar hafnir verður svo skoðað í framhaldinu hvernig hægt er að tengja stærri skip. Tekjur af skemmtiferðaskipum hafa einnig gert okkur kleift að endurbyggja trébryggjur og nú er verið að leggja lokahönd á Angróbryggjuna okkar sem líklega verður ein af umhverfisvænustu bryggjum á landinu.

Hér á Seyðisfirði stefnum við líka að því að taka upp EPI eða Environmental Port Index líkt og gert hefur verið í Faxaflóahöfnum, og eru fleiri hafnir að taka þennan mælikvarða upp líka. EPI gerir okkur kleift að hafa eftirlit með skipunum og þegar lagaheimild fæst verður hægt að „sekta“ þá sem menga mest. Í ljósi þess að Seyðisfjarðarhöfn er sennilega fjórða stærsta höfn landsins þegar kemur að skemmtiskipakomum, er mikið í húfi og því nauðsynlegt að auka eftirlit með skipunum. Umhverfisstofnun var um tíma með loftgæðamælir hér á Seyðisfirði yfir sumartímann þegar skipaumferð var sem mest. Sá mælir var tekin niður og nýttur annars staðar en það er löngu tímabært að Umhverfisstofnun hefji mælingar að nýju svo hægt verði að fjalla um loftgæði á upplýstan hátt.

Við að sjálfsögðu eyðum ekki mengun stórra skipa með landtengingu, en getum minnkað eða jafnvel með tímanum eytt útblæstri í höfnum landsins. En því má ekki gleyma að þegar sett eru markmið varðandi kolefnislosun einkabílsins og annarra farartækja eru tímamörkin vel rúm og jafnvel áratugir. Við verðum að gera slíkt hið sama fyrir skipaiðnaðinn, af hverju er þess krafist að hann breyti sér strax? Með það í huga að skipafélögin eru að aðlaga sig að kröfum samfélaganna um minni mengun verðum við að gefa þeim sama séns og öðrum.

Að lokum vona ég að það náist sátt um þennan mikilvæga hluta ferðaþjónustunnar sem er litlum höfnum út á landi dýrmætur. Ekki gleyma því að við búum á eyju og einu leiðirnar til okkar eru með flugi eða skipi. Líklegt er að í náinni framtíð verði ferðalög með skipum ekkert síðri ferðamáti hvað umhverfisþáttinn varðar. Mér leiðist afskaplega allt þetta tal um að þessir farþegar séu verri en þeir sem koma með flugi og eyði engu. Hér á Seyðisfirði er handverksmarkaður sem hefur stóran hluta af sínum tekjum af þessum farþegum og ferðaþjónustufyrirtæki hér, svo sem rútuþjónustur og leiðsögumenn, hafa mikinn hag af þessum skipum. Reynum að vinna saman að móttöku þessara ferðamanna og höldum áfram að sýna þeim að Ísland er gott að heimsækja.

Höfundur er yfirhafnarvörður á Seyðisfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.