Umhverfisáskorun til sveitarfélaga á Norður- og Austurlandi
Þrátt fyrir stór skref í endurvinnslu á undanförnum árum fer enn mikið magn úrgangs til urðunnar með tilheyrandi kostnaði, jarðraski og kolefnisspori. Það er ljóst að enn eru mikil tækifæri til staðar í frekari endurvinnslu úrgangs.Sú kynslóð sem er að vaxa úr grasi á Norður- og Austurlandi þekkir ekki annað en að sorp sé flokkað og hefur staðið sig vel í því. En til hvers að flokka þegar helmingurinn af sorpinu er svo keyrður um langan veg og urðaður með tilheyrandi kostnaði og mengun fyrir sveitarfélög og íbúa þeirra?
Lengi hefur verið talað um sorp eða úrgang sem endurnýtanleg verðmæti. Engu að síður eru þessi verðmæti vaxandi kostnaðarliður sveitarfélaga og íbúa þeirra eins og málum er háttað í dag. Þessi úrgangur er í talsverðu magni fluttur úr landi, þar sem hann verður endanlega að verðmætum eftir endurvinnsluferli eða með brennslu til framleiðslu á orku.
Tækifæri
Í Svíþjóð er um helmingur úrgangs nýttur til framleiðslu á orku til húshitunar fyrir um eina milljón heimila og raforku fyrir 250 þúsund heimili. Spyrja má hvort Íslendingar geti einnig náð árangri í þessum efnum. Ef sveitarfélög á Norður- og Austurlandi taka höndum saman og koma í sameiningu upp brennsluofni mætti framleiða orku, draga úr mengandi landfyllingu úrgangs, auka endurnýtingu og draga úr kostnaði. Það er til mikils að vinna þar sem talið er að urðunarkostnaður muni aukast á næstum árum vegna meiri hamla á urðun úrgangs í landfyllingu.
Áskorun
Undirritaðir skora á sveitarfélög á Norður- og Austurlandi að taka höndum saman og kanna hagkvæmni þess að stofna félag er hefði það að markmiði að koma upp úrgangsbrennslu til orkuframleiðslu.
Þórhallur Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og formaður skipulagsráðs.
Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og varaþingmaður.