Orkumálinn 2024

Unga fólkið okkar

Unga fólkið, þegar ég skrifa þessa setningu finnst mér ég vera orðin gömul, en það er samt ekki það langt síðan ég var hluti af þeim stóra hópi sem stóð á krossgötum eftir 10 bekk. Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Var alltaf spurt. Flest okkar áttum við stóra drauma. Sumir eltu draumana, en ekki allir.

Ég var ein af þeim sem ætlaði mér að verða dýralæknir, en til þess hefði ég þurft að klára menntaskólann með trompi og fara svo í nám til útlanda. En það var ekki inn í myndinni að draumurinn minn snerist um að koma aftur heim á héraðið sprenglærð sem dýralæknir eða eitthvað annað, ég velti þessu ekki fyrir mér þá, en ég geri það svo sannarlega núna. Af hverju var það aldrei stefnan að elta drauma mína og koma til baka til að styrkja samfélagið mitt? Vegna þess að það var einhvern vegin „normið“. Krakkar fóru í menntaskóla svo háskóla og það voru svo mörg tækifæri í bænum eða erlendis að flestum datt aldrei í hug að koma til baka þar sem ekkert beið þeirra atvinnulega séð. Að sjálfsögðu hefur fólk komið til baka eftir nám, en ég er nokkuð viss um að meirihlutinn gerði það ekki.

Ég er ekki sprenglærð bóklega séð og var ekki ein af þeim sem fór til að elta draumana, hefði ég gert það hefði tilhugsunin um það að flytja í annað land langt frá fjölskyldu og vinum verið mér ofviða? Mögulega. Ef þetta nám hefði boðist mér hér heima og hvað þá hér á Héraði? Klárlega.

Hvert er ég að fara með þessari sögu?

Ég leit aldrei á þetta sem vandamál að gera ráð fyrir því að framtíðin væri ekki hér heima í héraði atvinnulega séð fyrr en núna.

Af hverju geri ég það núna? Af því að ég er orðin mamma, ég vil sjá að stelpan mín geti elt draumana sína auðveldlega og komið aftur heim af því þar eru tækifærin, fjölskyldan, ræturnar. Ég vil að við hættum að hugsa það sem norm að þurfa að leita annað.

Draumórar segið þið?

Það er aldrei of seint að elta drauma sína er sagt.

Það er minn draumur, að sjá nýja sveitarfélagið eitt af því öflugasta og sjálfbærasta á landinu. Ég veit að ég get ekki breytt þessu ein en til þess þarf ég þína hjálp.

Við stöndum sterkari saman.

Höfundur skipar 4. sætið á lista Miðflokksins í sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.