Uppbygging Egilsstaðaflugvallar og varaflugvallagjaldið

Fyrir fjórum árum síðan skilaði starfshópur sem ég veitti formennsku af sér skýrslu undir heitinu „Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins sem almenningssamgangna“. Í starfshópnum sátu einnig Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, og Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Fyrir starfshópnum lágu tvö stór úrlausnarefni. Annars vegar að bæta aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að miðlægri þjónustu höfuðborgarinnar með þeim hætti að innanlandsflugið standi undir nafni sem almenningssamgöngur. Í almennri umræðu hefur verið talað um „skosku leiðina“ í þessu sambandi. Í dag betur þekkt sem „Loftbrúin“ (www.loftbruin.is).

Hins vegar sneri seinna verkefnið að því hvernig best væri að standa að viðhaldi og nýframkvæmdum á flugvöllum landsins.

Verkefnið í hnotskurn felur í sér að gamla varaflugvallagjaldið var lagt af í maí 2011 en við það hrundi tekjustofn til nýframkvæmda og viðhalds á flugvöllum landsins. Fjármagnið sem varið var til flugvalla landsins lækkaði að meðaltali úr rúmum 1.400 milljónum í 350 milljónir á verðlagi árs 2017. Í skýrslunni var lagt til að sett yrði á 100-300 króna varaflugvallagjald á hvern fluglegg.

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú komið fram frumvarp þar sem lagt er til að varaflugvallagjald sé tekið upp og lagt til að 200 króna varaflugvallagjald sé lagt á flugmiða fyrir hvern fluglegg. Það hefur verið þeim sem hér skrifar ljóst um árabil að niðurlagning varaflugvallagjaldið 2011 var mikið óheillaskref fyrir íslenska flugvallakerfið og það ástand sem skapaðist í framhaldinu var aldrei bætt. Því ber að fagna að frumvarp sé komið fram sem boðar að varaflugvallagjald sé tekið upp að nýju, þó það sé byggt á öðrum forsendum en áður var.

Nauðsynlegar framkvæmdir á Egilstaðaflugvelli

Það er mikilvægt að hefja stækkun flughlaðsins á Egilsstöðum sem allra fyrst. Þannig að hægt væri að taka við 6-7 þotum til viðbótar við núverandi flughlað.

Þá gæti flugvöllurinn tekið við 10-12 vélum á sama tíma í stæði. Það er mikið öryggismál sökum vaxandi flugumferðar til og frá Íslandi og um íslenska flugumferðarsvæðið. Hér er einnig rétt að líta sérstaklega til möguleika sem tengjast útflutning á ferskum fiski og þá sérstaklega í tengslum við laxeldið á Austfjörðum.

Það er einnig mikilvægt að leggja akbraut við hlið núverandi flugbrautar. Þannig er hægt að efla getu flugvallarins enn frekar til að taka við mörgum flugvélum samtímis til dæmis þegar sú staða kemur upp að Keflavíkurflugvöllur lokast t.d. vegna veðurs eða annarra þátta og nauðsynlegt er að nýta varaflugvöll.

Eitt af forgangsverkefnum flugvallarins er að lengja flugbraut flugvallarins í það minnsta um 400 metra, þannig að hún yrði 2.400 metrar. Það styrkir flug stærri flugvéla um völlinn sérstaklega fraktflugvéla og einnig þeirra er fljúga langar flugleiðir og fara í loftið með fulla tanka af eldsneyti.

Aukin umferð og öryggiskröfur kalla á styrkingu aðflugs og aðflugsferla flugvallarins sem alþjóðlegs varaflugvallar. Huga þarf að gervihnattaleiðsögu og hefðbundnum aðflugskerfum.

Lokaorð

Það hefur verið þeim sem hér skrifar ljóst um árabil að niðurlagning varaflugvallagjaldið 2011 var mikið óheillaskref fyrir íslenska flugvallakerfið og það ástand sem skapaðist í framhaldinu var aldrei bætt. Því ber að fagna að frumvarp sé komið fram sem boðar að varaflugvallagjald sé tekið upp að nýju, þó það sé byggt á öðrum forsendum en áður var. Hér skapast von um að með tilkomu frumvarpsins sem byggist á vinnu starfshópsins á sínum tíma skapist forsendur fyrir að farið sé í uppbyggingu Egilsstaðarflugvallar.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

varaflugvallagjald ntf

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.