Þurfa sveitarstjórnarkappar Austurlands að hlusta?

Íris Randversdóttir grunnskólakennari skrifar:

 

Hroki eða hleypidómar?

 

Í hundslappadrífu sunnudagsins settist ég við tölvuna mína og kíkti sem oftar á vef Austurgluggans.  Rak ég fljótlega augun í grein með yfirskriftinni Smjörklípumeistara svarað og þótti afar athyglisverð fyrir ýmissa hluta sakir.  Hana skrifa valinkunnir og margkjörnir sveitarstjórnarmenn í fjórðungnum, þeir Smári Geirsson og Þorvaldur Jóhannsson.

Í henni eiga að koma fram mótrök við málflutning dr. Þórólfs Matthíassonar um að Kárahnjúkavirkjun og bygging álvers við Reyðarfjörð hafi sett sitt mark á ofþenslu undanfarinna ára. Þeir eru drjúgir með sig, fara mikinn og benda Smjörklípumeistaranum, sem er doktor í hagfræði, m.a. á orð Görans Persson fyrrum forsætisráherra Svía um almennt ofmat fræðigreinarinnar hagfræði og gagnsemi heilbrigðrar skynsemi við stjórn efnahagsmála.  Þó ég hafi ekki gaumgæft þau greinaskrif er þeir vitna í, þá verð ég að segja að mér þykir undirtónn málflutnings þeirra á frekar lágu plani.

  

Tímarnir eru stormasamir og þjóðin krefst svara og réttlætis. Svara við því hvernig fjárhagsstaða okkar – hinnar stórhuga, stoltu og sjálfstæðu þjóðar í  landinu fagra í norðri -  gat orðið svona óskiljanlega hræðileg. Hvernig stendur á því að við erum allt að því gjaldþrota og hreinlega upp á náð annarra þjóða komin fjárhagslega? Hverjir eru sekir? Hvernig eigum við að spila úr málum af réttlæti og skynsemi? Á hverju eigum við að byggja nýjan grunn? Til þess að finna svör þurfum við að leita þeirra og greina svo stöðuna út frá því sem við finnum. Ríkisstjórnin sendi neyðarkall til hlutlausra aðila – m.a. Alþjóða gjaldeyrissjóðsins - til aðstoðar, ekki bara um fjárhagslega aðstoð  en einnig um að koma okkur á sporið við greiningu vandans. Við vissum að þar er að finna hámenntað, harðsnúið og þrautreynt fólk sem víða hefur farið og bregst við af snarræði. Hefur stofnunin síðan gaumgæft efnahagsstöðuna, þ.e. efnahagshrunið, af hlutleysi og er enn að. Af nógu er víst að taka. Við hrópuðum líka og kölluðum eftir svörum frá hagfræðingunum okkar. Þeir hafa sumir hverjir lagt sig í líma við greina stöðuna og að finna hugsanlegar úrbætur og lausnir. Á meðal hagfræðinganna var dr. Þórólfur Matthíasson. Hann hefur lagt margt athyglisvert til málanna sem vissulega  hljómar misvel í eyrum.

 

Það er einfaldlega svo að þegar spurt er spurninga fást ekki ætíð þau svör sem gott er að heyra. Gagnrýnendur Smjörklípumeistarans, þeir Smári og Þorvaldur, eru reyndir menn og ættu ekki að ganga að því gruflandi. Það er því ótrúlegt hve  mikils hroka gætir í málflutningi þeirra gagnvart hagfræðingum almennt, dr. Þórólfi og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og gagnvart því mati að bygging álversins á Reyðarfirði hafi  átt sinn þátt í að hrinda skriðu ofþenslunnar af stað. Þegar virkjunin og álverið voru í farvatninu var talað um að  hér yrðu á ferð hvorki meira eða minna en stórkostlegustu framkvæmdir Íslandssögunnar.  Misminnir mig kannski? Það skyldi þó ekki vera að þessar ógnarmiklu framkvæmdir hafi getað haft einhver áhrif á efnahagsástand og fjármálastöðu þjóðarinnar? Auðvitað og við því var að búast.  Menn verða að þora að horfast í augu við allt ferlið.

 

En er það bara merki um skort á skynsemi stofnana og/eða hagfræðinga ef þeir komast að niðurstöðu og með ábendingar um eitthvað sem stjórnmálamenn vilja ekki heyra? Hvað hefðu Smári og Þorvaldur sagt nú ef álverið hefði verið reist einhvers staðar annars staðar, t.d. á Norðurlandi?  Þeir félagar börðust fyrir álverinu af sannfæringu og af heilindum. Það er ekki verið að deila á þá fyrir það. Hvernig sem á það er litið átti samt enginn von á þeim ósköpum sem nú eru uppi. Það hefði vissulega átt að gera marga hluti öðruvísi við fjármálastjórn þessa lands undanfarin ár hvort sem var hjá ríkinu, sveitarfélögum, í bönkum, byggingabransanum eða annars staðar. Ýmsir hagfræðingar og margir aðrir mætir einstaklingar, meira að segja með heilbrigða skynsemi, bentu stjórmálamönnum á það.

 

Ef til vill ættum við að hafa fleiri heilbrigða og skynsama hagfræðinga í sveitarstjórnum og í ríkisstjórn? Það væri líklega að ósekju miðað við menntun og fyrri störf ýmissa umdeildra áhrifamanna þessa dagana. Mér er spurn svona í leiðinni; hafa sveitarstjórnarmenn á Austurlandi litið í eigin barm hvað varðar þá heilbrigðu skynsemi sem greinarhöfundar benda á og kenna við Göran Persson? Eru kannski menn á sveitarstjórnarsviði á Austurlandi eitthvað heilbrigðari, skynsamari eða vammlausari gagnvart kreppuástandinu en aðrir stjórnmálamenn í þessu landi? Það held ég varla. Mér þykir því hreint ótrúlegt að Smári og Þorvaldur álíti sig þess umkomna að svara einfaldlega rökum stofnunar á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hámenntaðs hagfræðings eins og dr. Þórólfs bara fullum hálsi eins og smástrákar. Það ber ekki merki um hlutlausa yfirsýn eða virðingu fyrir alvörunni af þeirra hálfu. Það er ekki eins og verið sé að kenna neinum um þó reynt sé að skoða stöðuna utan frá, fá yfirsýn og gera það með köldum, óþægilegum röksemdum - alvara mála gefur fullt tilefni til þess. Höfum við ekki verið að kalla eftir því að litið sé í öll horn? Að allt sé dregið fram? Allt upp á yfirborðið? Líka það sem við viljum ekki heyra. Við, hinir almennu borgarar höfum fengið skammir fyrir að hafa ,,fyllst kaupmætti” og sóað og spennt hömlulaust.  Þurfum við ekki öll að hlusta? Líka sveitarstjórnarkappar á Austurlandi? Ég held við viljum öll eindregið læra af stöðunni, gagnrýna, hafa skoðanir, vega og meta upplýsingar og geta nýtt allt sem fram kemur. Opnum því eyru og augu.

 

En elsku strákar, komum endilega umræðunni um ástand mála í fjórðungnum og á landinu öllu, um skoðanir manna og ályktanir,  upp af þessu úrelta, gamla, fúla hrepparígsplani sem allir eru orðnir hundleiðir á. Það dugir ekki lengur að sitja í sandkassanum og kasta grjóti á móti.  Fólk hlustar ekki á málflutning af þessu tagi lengur. Hafi stjórnmálaumræða nokkurntíma verið alvörumál sem krefst virðingar  þá er það nú. Við kjósendur gerum kröfu um það.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.