Útrýmum riðuveikinni hjá sauðfé á Íslandi

Eftir að genið sem veitir nánast algert ónæmi sauðfjár gagnvart riðu fannst í fé á Þernunesi á síðasta ári opnaðist skyndilega möguleiki til útrýmingar riðu hjá sauðfé hér á landi.

Ráðherra kallaði eftir tillögum fjárbænda, vísindamanna, dýralækna og fleiri og faldi tillögugerð sína, yfirdýralækni, þrátt fyrir að hún til þessa á árinu hafði fyrst og fremst klúðrað mörgu í framkvæmd riðuniðurskurðar eins og landsmenn þekkja úr fréttum á árinu. Ég reyndi að koma mínum sjónarmiðum á framfæri við ráðherra og yfirdýralækni og fékk góða áheyrn hjá fagráði í sauðfjárrækt. Virðist mér sem árangur þess hafi verið líkt og að stökkva vatni á gæs. Tel mig samt hafa 60 ára reynslu af þessari baráttu og hafa lesið heilmikið um riðu hjá sauðfé og hafa verið í forystu þess ræktunarstarfs sem unnið hafði verið á þessu sviði hér á landi í nær tvo áratugi. Árangur þess ræktunarstarfs samt enginn í samanburði við það sem nú blasir við. Áhugi minn á málinu er því skiljanlegur.

Árangur af starfi vinnuliðs ráðherra liggur nú fyrir í ömurlegri skýrslu þar sem höfundar nánast letja bændur í stað þess sem ég hélt að hefði verið hlutverk þeirra að hvetja bændur og leggja fram tillögur um árangursríka framkvæmd til útrýmingar veikinni. Á þetta var bætt með því að haldnir voru það sem kallaðir voru kynningarfundir, sem alls ekki veittu þessa forystu og villtu um fyrir bændum með löngu hjali um breytileika í riðugeninu sem aldrei munu skipta nokkru máli í þessu starfi verði það unnið með skjótan árangur að leiðarljósi og á sem hagkvæmastan hátt. Ég er sannfærður um að það er þannig sem allir sauðfjárbændur vilja að unnið sé.

Hægt að útrýma riðunni á þremur árum með sæðingum

Ráð mitt til bænda þegar forystan bregst algerlega er einfalt. Í vetur sæðið þið sem sauðfé eigið það mikið með úrvalshrútunum sem bera ARR genið nú í desember og arfgerðagreinið öll hrútlömb sem fæðast úr þessum sæðingum næsta vor og setjið á næsta haust eingöngu hrútlömb sem bera genið en til viðbótar hrútunum úr sæðinu eigið þið um 7000 slík hrútlömb sem afrakstur ásetnings ARR fjár um allt land haustið 2023. Þetta endurtakið þið 2025 og 2026. Þá setjið þið mest á arfhreina ARR hrúta og eingöngu slíka haustið 2026. Þá eru þið nánast komnir í mark með að útrýma riðunni.

Þetta gerið þið vegna þess að Eyþór Einarsson hefur valið frábæra þannig hrúta fyrir stöðvarnar og þeir verða áreiðanlega enn glæsilegri hópur 2025 og 2026. Kollóttu Þernuneshrútarnir tveir voru í haust að skila til skoðunar glæsilegri lambahópum en aðrir stöðvahrútar. Það hefði ég einhvern tímann kallað happafeng. Ég lagði til að ríkið styddi sæðingarnar að einhverju marki en það hefur lofað styrk til arfgerðagreininganna. Ég treysti forsvarsmönnum stöðvanna fyrir því að bændur mun ekki vanta sæði úr ARR hrútum í vetur. Auðvitað veljið þið ykkar bestu ær til þessarar ræktunar.

Tímaeyðsla að leita að frekari breytileikum


Á fundum og skrifum ráðgjafa ráðherra hefur verið haldið á lofti stafrófskveri margskonar breytileika í príongeninu. Þetta skiptir nákvæmlega engu máli. Þessa hrúta er ástæðulaust að nota til sæðinga nema þið sjáið hjá þeim afgerandi kosti í öðrum eiginleikum. Á áðurnefndum fundum var franskur vísindamaður sem vinnur með tilraunaglös og ég spurði um hvort einhversstaðar í Evrópu þar sem víða hefur verið valið fyrir ARR geninu í 20 ár væri farið að nota aðra breytileika í ræktuninni. Hann staðfesti að svo væri ekki, eins og ég vissi, auk þess sem hann varaði við að sínar niðurstöður væru aðeins úr tilraunaglösum. Varla ætlum við að viðhalda riðu hér á landi til að staðfesta þær? Engi teikn hef ég séð að stjórnvöld ESB séu á leiðinni að breyta reglugerðum sínum í þessum málum. Það eru samt þær ákvarðanir sem mestu skiptir íslenska sauðfjárrækt og –framleiðslu á næstu áratugum.

Ég er, eins og þessir fyrrum starfsbræður mínir, það grunnhygginn að skilja ekki íslensku vísindin. Þeir, eins og ég, hafa ekki enn skilið hvaða máli skiptir að gera kind frekar ónæma fyrir riðu þegar hún er búin að fá það sem flestir telja nánast fullkomið ónæmi. Tala ekki um þegar þetta frekara ónæmi er frekar illa sannað. Vísindi á þessu plani eru aðeins til hjá ráðgjöfum matvælaráðherra.

Óþarfa áhyggjur af skyldleikaræktun


Ráðgjafarnir hafa aðeins flaggað hættu af skyldleikarækt og tapi á erfðabreytileika og farið í mikla tölvuleiki vegna þessa. Þetta get ég fullyrt við ykkur bændur að eru algerlega óþarfar áhyggjur. Ræktun eins og þessi verður ekki hermd með tölvulíkönum sem auðveldast er að sannreyna með þeirra niðurstöðum fyrir árið 2026 sem þeir birta í sínum útreikningum og þess árangurs sem þið ætlið þá að hafa náð þá að hafa alla ásetningshrútana arfhreina. Önnur leið sem þið öll getið notað er að bera saman skyldleikarækt út frá ættartöflum í Fjárvís á annars vegar ARR hrútunum á stöðvunum og hinum án gensins, Raunveruleikinn mun verða að skyldleikarækt mun verða minni en í hinni hefðbundnu ræktun. Það val sem gert er með miklum fjölda hrúta, stuttum notkunartíma og vali hrútanna með lágmörkum á skyldleikarækt mun að sjálfsögðu tryggja slíka þróun. Má bæta við að erfitt hefur reynst að finna neikvæða áhrif skyldleikaræktar hjá sauðfé hér á landi. Þau koma aðeins fram við nána skyldleikarækt og hún kemur ekki fram í hinni fyrirhuguðu ræktun.

Ég tel mikilvægast að útrýma riðunni eins fljótt og mögulegt er en jafnframt að gera það á sem ódýrastan hátt. Um bæði þessi atriði hljóta allir að vera sammála. Hvernig ná á fyrra markmiðinu hef ég þegar rætt.

Nú er verið að leggja í verulegan umframkostnað vegna greininga á ARR geninu. Engin þörf er að greina nema ARR genið og það aðeins hjá afkvæmum Þernunesættaðs fjár, nema genið finnist mögulega víðar. Þetta mun spara yfir milljarð í greiningakostnaði og hvort sem það er ríkissjóður eða bændur sjálfir hlýtur það hvorum sem er að vera velþegið fé. Báðum er tamara að eyða um of.

Auðljóst er að með að ljúka ARR ræktuninni á þrem árum og snúa sér síða alfarið að öðrum eiginleikum sem mestu skipta. Þannig næst miklu meiri árangur en samkvæmt tillögum ráðgjafanna í ræktunarstarfinu almennt.

Nenni ekki að elta ólar við meira af villunum í skýrslu ráðgjafanna. Hún ber aðeins vott um litla kunnáttu og/eða skilning á meginatriðum málsins.

Bændur! Notið ráð mín, notið ARR hrútana mikið bæði þá sem þið eigið sjálfir eða eru á sæðingastöðvunum, greinið hrútlömbum og farið strax næsta haust að setja á sem flesta arfhreina ARR hrúta og enga án gensins. Á þann hátt útrýmið þið riðunni á Íslandi endanlega á næstu þrem árum. Það er langþráð markmið!

Höfundur er doktor í búvísindum


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.