Vantar eitthvað??

Það er allt í himna lagi. Það er hiti á ofnunum, ljósið logar á lampanum, matur í ísskápnum og varasjóður á bankabókinni, krakkarnir sofnaðir og ég mæti í vinnuna á morgun.

Er ekki lífið fullkomið?


Eiginlega - en þó vantar eitthvað. Það er þarna en við veltum því ekki fyrir okkur í hinu daglega amstri þó það sé allt í kringum okkur og fylli í allar glufur tilverunnar. Það gengur undir ýmsum nöfnum og birtist í öllum myndum. Það er ljósið í málverkinu, skugginn í ljósmyndinni, angurværðin í fréttastefinu, takturinn í nýjasta dægurlaginu, auglýsingin í bæjarblaðinu því það vantar fleiri í kirkjukórinn.

Það er þetta sem gerir lífið að því þroskaða og eftirsóknarverða fyrirbæri sem það er. Það er… MENNINGIN.

Bíddu, þarf eitthvað að pæla í henni, er hún ekki bara þarna og gerist af sjálfu sér?

Jú, að einhverju leyti en það þarf að leggja við hana rækt eins og blómin í stofuglugganum og kartöflurnar í garðinum. Hún þarfnast athygli okkar, næringar og ljóss. Samfélög sem hlúa að og leggja fjármagn í menningu og listir eru lífvænleg og eftirsóknarverð. Fyrirtæki sem setja fjármagn í hönnun vegnar til dæmis alla jafna betur á hinum almenna markaði. Svo einfalt er það.

Austurlistinn er skipaður breiðum hópi fólks sem mun leggja sig fram við að hlúa að þessum mikilvæga og stundum óáþreifanlega þætti í nýju sveitarfélagi. Það skiptir nefnilega litlu máli hverju við áorkum í öllum stóru málunum ef hér er ekki gott að búa.

Ég kom til Seyðisfjarðar 2012 til þess að vinna eitt sumar. Hér er ég enn og það er bara ein ástæða. Það er hin ríka menning, skapandi orka og fallega samfélagið sem opnaði dyrnar og bauð okkur velkomin. Samfélag sem er stolt af gömlu húsunum, sögunni og talar fallega um bæinn sinn. Samfélag sem er orðið vant því að hingað flykkist alls kyns listafólk og hefur leyft því að lyfta samfélaginu á hærra plan. Ég treysti því að í sameinuðu sveitarfélagi getum við lagt alla flottu reynsluna saman, haldið sérstöðunni á hverjum stað um leið og við byggjum brýr (og göng) okkar á milli til að tengjast.

Ef við hlúum að menningunni um leið og við byggjum upp innviðina vil ég búa hérna áfram !

Höfundur er framkvæmdastýra og skipar 8. sæti Austurlistans í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.