Vara við hækkunum HAUST

Austfirskar sveitarstjórnir vara við boðuðum gjaldskrárhækkunum Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Hækkanirnar hafa verið lagðar til vegna versnandi fjárhagsstöðu eftirlitsins.

 

Image Gjaldskrárhækkanirnar verða teknar fyrir á aðalfundi HAUST í næstu viku. Í fundargerð heilbrigðisnefndar segir að miklar hækkanir hafi orðið á rekstrarliðum og ljóst að auknar tekjur verði að koma til að standa undir rekstrinum. Þar segir meðal annars að kostnaði verði alltaf velt yfir á skattgreiðendur, hvernig sem málunum verði snúið. Nefndin leggur áherslu á raunhæfa rekstraráætlun enda lántaka dýr. Aðildarsveitarfélögin bera ábyrgð á öllum fjárhagsskuldbindingum HAUST í réttu hlutfalli við árstillög þeirra sem reiknuð eru út frá íbúafjölda.

Sveitarstjórnir þriggja aðildarsveitarfélaga, Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar hafa ályktað um og gagnrýnt fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir. Þau segja óvarlega farið og telja mikilvægara nú en oftast áður að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám. Þau vilja að HAUST endurskoði áætlanir sínar og leiti leiða til hagræðingar í rekstri.

Staða HAUST hefur versnað á árinu. Í júní var reksturinn nokkurn vegin í samræmi við áætlun en síðan hækkuðu laun bandalagsmanna BHM auk þess sem annar kostnaður hefur hækkað og því útlit fyrir að endar nái ekki saman á árinu. Tekjur eru minni en gert var ráð fyrir, meðal annars hefur ekki orðið af samningum um aukin verkefni frá Umhverfisstofnun og verkum á hálendinu er að ljúka.

Aðalfundur SSA gagnrýndi stofnunina fyrir seinagang þrátt fyrir stuðning þingmanna Norðausturkjördæmis og viljayfirlýsingu umhverfismálaráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar um flutning verkefna út á land. „Sætir furðu að undirstofnun ráðuneytis taki ekki mark á slíku. Nú þegar virkjunarframkvæmdum og byggingu álvers við Reyðarfjörð er lokið liggur fyrir að fækka þarf starfsmönnum HAUST ef ekki verða flutt þangað önnur verkefni. Þetta gerist á sama tíma og búast má við fækkun starfa í öðrum greinum atvinnulífsins á Austurlandi.“

Í fyrra varð 1,3 milljóna króna halli á rekstri HAUST vegna launahækkana.


 Liður Verði
Var
 Tímagjald 8.000 6.000
 Leyfi vegna nýrrar starfsemi* 12.000 7.900
 Endurnýjun eða breyting á starfsleyfi
8.000
5.700
 Önnur starfsleyfi
12.000 7.900
 Endurnýjun annarra leyfa
8.000
5.700
 Leyfi vegna skammtímastarfsemi 6.000
3.920
 Sýni 11.500
10.000
 Önnur þjónusta
Hálft tímagjald
 

* Leyfin eru til fjögurra ára en verða til tólf ára
Við sumar upphæðirnar bætast reikningar vegna aksturs, auglýsinga og fleiri þátta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.