Vegagerðin undirbýr útboð

Í nýjum Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir nokkrum verkum á Austurlandi í útboð á næstunni. Verktakafyrirtæki, sem boðið hafa í vegaframkvæmdir á Austurlandi, óttast þó að verkum sem ekki eru þegar farin í útboð verði jafnvel frestað.

vegagerdin.jpg

 

 

Í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar frá 27. október sl. segir að Vegagerðin stefni að því að bjóða út á næstu vikum og mánuðum nokkur stór verk með verktíma 2-3 ár, og smærri verkefni þar sem meginþungi framkvæmdanna er á árinu 2009. Nákvæmar tímasetningar liggja ekki fyrir á öllum verkum en reynt verði að tilkynna það jafnóðum og þær liggja fyrir.

,,Fyrst á lista af stóru verkefnunum er tenging Norðausturvegar um Vesturárdal til Vopnafjarðar. Um að ræða vegagerð frá Bunguflóa til Vopnafjarðar. Heildarlengd vega er tæplega 39 km með tengingum sem þarf að framkvæma. Útboðið hefur þegar verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu og gert er ráð fyrir að útboðsgögn verði afhent mánudaginn 3. nóvember. Áætluð verklok eru síðla árs 2011" segir í Framkvæmdafréttunum. Þá er tilgreint að annað stórt verkefni á Austurlandi sem reiknað er með að boðið verði út á næstu vikum sé Hringvegur í Skriðdal sem er um 11 km langur kafli frá Litla Sandfelli að Haugaá, með brúm á Þórisá, Eyrarteigsá og Jóku. Nákvæmar dagsetningar á útboði liggja ekki endanlega fyrir, en unnið að lokaundirbúningi þeirra hjá Vegagerðinni.

Að auki er Vegagerðin með á framkvæmdaáætlun Upphéraðsveg: Fellabær/Ekkjufell, Hringveg 1 um Hornafjarðarfljót og Norðausturveg: Bunguflói/Vopnafjörður.

Austfirskir verktakar óttast sumir hverjir að Vegagerðin fresti útboðum í ljósi efnahagsástandsins í landinu. Norðausturvegurinn um Vesturárdal til Vopnafjarðar verði jafnvel eina verkið sem farið verði í, þar sem það hefur þegar verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.