Verk að vinna á Seyðisfirði

Hamfarirnar á Seyðisfirði eru okkur öllum ofarlega í huga. Altjón hefur orðið á fjölda íbúðarhúsa auk þess sem ýmis önnur mannvirki eins og atvinnuhúsnæði, fráveitukerfi og fleira urðu fyrir miklu tjóni. Mikil mildi er að ekki fór verr og í raun með ólíkindum að ekki skuli hafa orðið mannskaði eða slys á fólki.

Sú saga öll, atburðarásin og tilviljanir sem urðu þess valdandi má ekki gleymast og mikilvægt að því sé öllu haldið til haga og mun sveitarstjórn Múlaþings leggja sitt af mörkum til þess. Umfangsmikið starf er fram undan við að tryggja öryggi á Seyðisfirði til frambúðar og hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að nauðsynlegt sé að hraða eins og kostur uppbyggingu samfélagsins, þ. á m. innviða og menningarminja á svæðinu.

Til að fylgja eftir málum hefur ríkisstjórnin skipað starfshóp með fulltrúum sex ráðuneyta undir forystu ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins. Í starfshópnum eru: Bryndís Hlöðversdóttir formaður, Haukur Guðmundsson dómsmálaráðuneytinu, Hafsteinn Pálsson umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Kristinn Hjörtur Jónasson fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Hólmfríður Sveinsdóttir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Rúnar Leifsson mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Auk þess starfar Víðir Reynisson hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra náið með hópnum ásamt starfsfólki í forsætisráðuneytinu. Um er að ræða hóp með mikla reynslu af svona málum og hef ég trú á því að hann sjái til þess að hlutum verði komið í framkvæmd og mikilvægum spurningum íbúa svarað. Meginhlutverk hópsins verður tvíþætt:

1. að vera tengiliður ríkisvaldsins og stofnana þess við sveitarfélagið um mál og verkefni sem leysa þarf úr í kjölfar hamfaranna;
2. að yfirfara kostnað sem til fellur í kjölfar skriðanna og eftir atvikum gera tillögur til ríkisstjórnar um greiðslur. Hópnum er ekki ætlað að taka að sér hlutverk sveitarfélagsins eða þeirra viðbragðsaðila sem sinna sínum lögbundnu verkefnum á svæðinu eftir sem áður.

Óskað var eftir því að hálfu stjórnvalda að Múlaþing skipaði fulltrúa til að starfa með hópnum og hefur mér verið fengið það hlutverk. Með því verður leitast við að tryggja milliliðalaust samtal stjórnvalda við heimamenn, flýta fyrir ákvörðunartöku og koma málum í réttan farveg. Ég tel mjög mikilvægt að við höfum beina tengingu við þennan hóp en ég veit jafnframt að starfshópurinn er í góðu sambandi við þær opinberu stofnanir sem starfa á svæðinu. Eitt af því sem starfshópur ráðuneyta er búin að koma upp er vefsíðan „spurt og svarað“ aðgengileg á island.is https://island.is/seydisfjordur og verður hún jafnframt gerð aðgengileg á vef sveitarfélagsins. Markmiðið með þessum vef er að taka saman upplýsingar fyrir íbúa á svæðinu um verkefni í framkvæmd og fyrirhuguð verkefni ríkisaðila á Seyðisfirði vegna hamfaranna. Svör við spurningum á þessum vef munu því verða uppfærð í samræmi við nýjustu upplýsingar hverju sinni en jafnframt munu fleiri spurningar og svör bætast við eftir því sem þurfa þykir hverju sinni.

Seyðfirðinga, sveitarstjórnar og ríkisvaldsins, með góðum stuðningi frá nágrönnum og samtökum sveitarfélaga á svæðinu, bíður það verkefni að fást við afleiðingar hamfaranna í desember og uppbyggingu í kjölfarið. Þetta verður langhlaup og reyndar örugglega hindranahlaup á köflum. Með samstilltu átaki verður þetta verkefni hins vegar leyst og á þeirri vegferð er mikilvægt að finna þann stuðning sem Múlaþing hefur fengið frá ríkisvaldinu og endurspeglast meðal annars í þessum starfshóp. Nú er verk að vinna.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings.Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.