Verkalýðshreyfingin taki sér stöðu með fólkinu nú þegar

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs starfsgreinafélags, segir verkalýðshreyfinguna nú hafa eitt besta tækifæri síðari ára til að hafa mótandi áhrif á samfélagið. Stéttarfélög og samtök þeirra eigi núna að vinna á þann hátt að félagsmenn þeirra geti verið stoltir af því að tilheyra þeim.

hjrds_ra_sigurrsdttir.jpg

Hjördís segir verkalýðshreyfinguna eiga að taka forystu í umræðunni um ábyrgð og endurreisn nú þegar.

,,Verkefni hreyfingarinnar er fyrst og síðast að verja hagsmuni okkar félagsmanna og reyna að standa vörð um félagslegan rétt félagsmannsins eins og hreyfingin hefur ætíð gert,“ segir Hjördís. ,,Nú er hins vegar brýnna en oft áður að hreyfingin geri sig gildandi, þar sem almenningur í landinu kallar eftir aðilum sem eru tilbúnir til forystu, til að ná fram réttlæti og til að ná fram sanngirni. Til að ná fram kröfunni um að ábyrgð sé öxluð af þeim sem hana báru svo að í framhaldinu sé hægt að byggja upp það traust sem til þarf. Hreyfingin má ekki missa af lestinni. Ef hún ætlar að vera með þarf hún að taka sér stöðu með fólkinu núna. Ekki á næsta ári, eins og ríkisstjórnin.“ Þetta kom fram á fundi Alþýðusambands Íslands og stéttarfélaganna á Egilsstöðum síðastliðinn þriðjudag. AFL er nú fjórða stærsta félagið innan Alþýðusambands Íslands.

Talsvert um uppsagnir

Í gær voru skráðir atvinnulausir á Austurlandi 127 einstaklingar, 78 karlar og 49 konur. Talsvert er um uppsagnir. Á atvinnuleysisskrá eru ekki komnir inn þeir sem enn eru vinna og/eða að fá greiddan uppsagnarfrest. Rauntala atvinnlausra er því að öllum líkindum hærri. Líðan og afkoma þeirra sem hafa misst vinnuna er eitt mesta áhyggjuefnið í dag. Möguleikar á endurkomu þeirra á vinnumarkað minnka umtalsvert eftir níu til tólf mánuði í atvinnuleysi og því brýnt að ná þessu fólki sem fyrst aftur á vinnumarkað.

Þrátt fyrir minni skuldsetningu fyrirtækja og einstaklinga á Austurlandi en víða á landinu, eru austfirsk fyrirtæki þegar farin að fara fram á gjaldþrotaskipti. Áhrif kreppunnar virðast enn sem komið er alvarlegust á Fljótsdalshéraði og koma fyrst þar fram.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.