Verkefni heim í hérað

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að efling sveitarstjórnarstigsins með sameiningu sveitarfélaga sé mikilvægur þáttur í að styrkja byggð á landsbyggðinni.

Á mínum starfsferli hef ég skrifað margar greinar um sameiningu sveitarfélaga. Þá hef ég komið að sameiningu þriggja syðstu sveitarfélaga á Austurlandi. Stjórnvöld hafa einnig lagt mikið upp úr því að sveitarstjórnarstigið verði eflt með sameiningu sveitarfélaga.

Rökin eru meðal annars þau að smærri samfélög séu síður undir það búin að taka við verkefnum frá ríki, verkefnum sem betur væru komin heima í héraði. Undir þetta hafa tekið fjölmenn sveitarfélög sem eðlilega vilja mörg hver taka yfir sem flest verkefni sem í dag eru á vegum ríkisins, en snerta starfsemi sveitarfélaganna.

Í umræðu um sameiningar sveitarfélaga hefur oftar en ekki verið rætt um breytingu á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, með það að markmiði flytja verkefni og þar með störf út til hinna dreifðu byggða. Þrátt fyrir að sveitarfélögum hafi fækkað verulega á síðustu 60-70 árum eða frá því að vera um 250 í 69 í dag hefur lítið komið frá ríkinu varðandi tilfærslu verkefna og þar með störf til sveitarfélaganna.

Stjórnsýsla ríkisins og einkafyrirtæki hafa verið að færa sig inn á þá braut, eftir reynslu okkar af Covid að auglýsa störf án staðsetningar, sem er jákvætt. Mikilvægt er að innan sveitarfélaga sé í boði aðstaða fyrir fólk sem stundar fjarvinnu, þannig að þau séu samkeppnishæf um störfin.

Skilvirk stjórnsýsla

Með sameiningu fjögurra sveitarfélag undir merkjum Múlaþings skapaðist tækifæri til að taka yfir verkefni frá ríkinu. Kynni mín af stjórnsýslu Múlaþings er að hún sé vel undir það búin að taka við fjölbreyttum verkefnum frá ríkisvaldinu. Markmiðið með yfirtöku verkefna verði að einfalda stjórnsýsluna, fækka boðleiðum og draga úr kostnaði. Yfirtaka hinna ýmsu verkefna kallar á lagabreytingar, sem ætti ekki að vera fyrirstaða, enda virðist pólitískur vilji, vera til staðar í eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Eitt af þeim verkefnum sem áhugavert væri að taka yfir eru skipulagsmál. Með yfirtöku málaflokksins og einföldunar á regluverki, verða skipulagsmál á einni hendi. Stjórnsýslan verður skilvirkari og dregur úr kostnaði, sem er ávinningur fyrir viðskiptavini. Í dag er flækjustigið þannig að hinn almenni borgari á erfitt með að koma sínum málum áfram.

Fyrirtæki sem vilja byggja sig upp þurfa jafnvel að bíða í um tvö ár eftir að einföldum skipulagsbreytingum. Í heimi viðskipta, með fjölbreytta vöru, þar sem breytingar geta verið tíðar er mikilvægt að opinbert regluvert sé þannig að það geti fylgt tíðarandanum.

Með því er ég ekki að segja að við eigum að gefa afslátt á lögum og reglum sem gilda á skipulagssviðinu, heldur fækka boðleiðum. Íbúi sem býr í miðbæ lítils sjávarþorps á sunnanverðum Austfjörðum þarf að fara í gegnum nokkrar nefndir og ráð ætli hann að byggja einfaldan pall við húsið sitt. Ferilinn getur tekur allt að tvö ár, með ærnum kostnaði fyrir hlutaðeigandi aðila.

Ávinningurinn sem skapast tæki Múlaþing yfir málaflokkinn gæti einnig falist í því að lagarammi og reglugerðir sem tengjast skipulags- og byggingarmálum verði samræmdar viðskiptavinum og sveitarfélögum til hagsbóta.

Ólafur Áki Ragnarsson, sækist eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.