Verslum í heimabyggð

Nú er aðventan að ganga í garð með öllu því sem henni tilheyrir. Allskyns tilboð hrúgast inn í pósthólfið og lúguna. Staðbundin verslun hefur átt undir högg að sækja með tilkomu netverslana, innlendra sem og erlendra.

Erfitt er að keppa við risaverslanir, sem senda með æ minni fyrirhöfn um allt land. Þessi gylliboð fá mann til að velta fyrir sér samkeppnisstöðu verslana í heimabyggð sem halda úti verslunum og starfsfólki heima í héraði.

Í Fjarðabyggð hefur verslunum fækkað á undanförnum árum, og er það miður. Enn eru þó starfræktar verslanir hér sem halda úti þjónustu og bjóða upp á vörur á samkeppnishæfu verði. Þessi fyrirtæki láta gott af sér leiða til samfélagsins. Á aðventunni er sérstaklega mikilvægt að leiða hugann að því að ekki er sjálfgefið að þessar verslanir séu starfræktar í ört erfiðari samkeppnismarkaði með tilkomu netsins.

Verslanir eins og Veiðiflugan, SÚN búðin og Pan, sem bjóða bæði upp á úrvalsvörur og þjónustu, þurfa á okkur að halda alveg eins og við þurfum á þeim að halda. Þá eru ótaldar hárgreiðslustofur sem bjóða upp á allskyns vörur og þjónustu, nuddstofur, gjafavöruverslanir og ýmislegt fleira.

Við þurfum að huga að nærsamfélaginu á þessum tímum, en megum auðvitað ekki gleyma því að huga að okkur sjálfum. Umfram allt er jólahátíðin tími ljóss og friðar og mikilvægt að gleyma sér ekki í amstri dagsins. Hugum hvert að öðru og njótum.

Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.