Við hljóðnemann

Forsætisráðherra brást illa við í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon fyrir páska. Þar var hún þráspurð út í bólusetningaáætlun ríkisstjórnarinnar uns spyrillinn spurði beint út hvort hún teldi heilbrigðisráðherra valda starfi sínu. Það sem ofbauð ráðherranum var reyndar eftirfylgni spyrilsins sem benti á að ráðherrann hefði ekki bara verið undir miklu álagi í vinnu sinni heldur lent í áföllum í einkalífi.

Fjölskyldur og einkalíf íslenskra stjórnmálamanna hafa lengst af verið utan dagskrár. Þannig er ekki endilega í nágrannalöndunum öllum þar sem framhjáhald og persónulegir brestir hafa orðið fjölmiðlaefni en síðan leitt til afsagnar. Út frá íslensku hefðinni var því rangt af spyrlinum að blanda einkalífi ráðherrans í málin. En burtséð frá því er spurningin um hvort heilbrigðisráðherra valdi starfi sínu ekki óeðlileg, eða í það minnsta ekki í augum okkar sem fylgst höfðum með málsmeðferð hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð.

Þar komum við að sögu úr daglega lífinu. Það er hlutverk fjölmiðla að vera fulltrúar almennings gegn kjörnum fulltrúum, í þessu tilfelli starfsfólks og annarra hagsmunaaðila hjúkrunarheimilanna gegn heilbrigðisráðherra. Með það í huga óskaði Austurfrétt/Austurglugginn eftir símaviðtali við ráðherra til að geta spurt beint og brugðist við svörum. Því var neitað vegna anna en þess í stað boðið að senda skriflegar spurningar. Svör, sem vart voru fugl né fiskur, bárust eftir viku í gegnum aðstoðarmann.

Daginn eftir útvarpsviðtalið gafst tækifæri á að senda forsætisráðherra spurningar í vefútsendingu á vegum flokksins. Þessi vefútsending er dæmi um almannatengsl sem stjórnmálaflokkarnir standa orðið fyrir, til undantekninga heyrir nánast ef þeir eru ekki með hlaðvörp eða slíkt þar sem þingmenn koma í þægilegt kaffispjall um málefni sem þeim hentar og svara spurningum sem þeim hentar. Kannski hlustar engin á þetta heimatilbúna efni nema hörðustu flokksmenn, en þannig eru fótgönguliðarnir mataðir til að mæta innblásnir á kaffistofuna og þannig liðast bylgjan.

Gallinn við vefútsendingu VG var að það var ráðherra eða starfsmaður flokksins, sem valdi úr innsendum spurningum til að svara. Það er ekki æskilegt að kjörinn fulltrúi geti valið sér spurningar. Það á að gerast af utanaðkomandi fundarstjóra, fulltrúa fólksins, til dæmis blaðamanni. En það er erfitt þegar ráðherrar taka ekki beina samtalið heldur vilja svara flestu í gegnum tölvupóst – eða það gera þeir þegar málin eru orðin erfið, óþægileg og spurningarnar kerfjandi.

Þetta er líka birtingarmynd annars vandamáls sem útdeiling opinbers fjármagns. Nýverið hafa þrír færir fréttamenn yfirgefið Vísi og ráðið sig til stjórnmálaflokka. Frumvarp um 400 milljónir í opinbera styrki til fjölmiðla, sem eiga að heita lýðræðisstoð, hefur setið fast í gíslingu Sjálfstæðisflokksins í á þriðja ár. Diet-útgáfa þess var afgreidd af Alþingi fyrir viku. Á sama tíma fá stjórnmálaflokkarnir 730 milljónir í styrki frá ríkinu. Þær fá þeir, réttilega, á þeim forsendum að stjórnmálaflokkar séu mikilvægir lýðræðinu og í þeirri von að fría þá einkaframlögum og sérhagsmunum. Þessa styrki nota þeir hins vegar í að ráða sér spunameistara og framleiða fjölmiðlaefni, í samkeppni við hina raunverulegu fjölmiðla, sem þeir vilja helst ekki svara.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.