Viðreisn menntakerfisins

Kennarar eru í harðri kjarabaráttu enn einu sinni. Hvers vegna þarf þessi fagstétt endurtekið og oftar en aðrar háskólamenntaðar stéttir að berjast fyrir bættum kjörum og jafnvel grípa til verkfallsaðgerða?

Getur verið að viðsemjendur skilji ekki að kennsla er sérfræðistarf sem krefst nú fimm ára háskólanáms? Eða, það sem verra væri, er starf kennara vanmetið vegna þess að það er „kvennastarf“? Launakjör eru þó ekki eini þátturinn sem hamlar velferð kennarastéttarinnar. Samkvæmt Hagstofu Íslands hefur brottfall kennara í grunnskólum mælst 12-14% milli ára og eingöngu um helmingur þeirra sem öðlast hafa leyfisbréf til kennslu starfa við kennslu.

Á Austurlandi var mönnunin þannig árið 2023 að í leikskólum var einn af hverjum fimm með kennsluréttindi og í grunnskólum voru 30% þeirra sem störfuðu við kennslu ekki með kennsluréttindi. Við heyrum það á kjósendum í Norðausturkjördæmi að þeir vilja breytingar á þessu. Sama staða er uppi á Vestfjörðum þar sem mun færri fagmenntaðir grunnskólakennarar eru við störf en annars staðar á landinu. Þessi tvö landsvæði eiga það sameiginlegt að þar eru stærstu sveitarfélögin fjölkjarna og dreifð samfélög, því fylgja margs konar áskoranir í starfsemi og rekstri skólanna sem og annarra stofnana sveitarfélaganna.

Kennarar hafa lengi bent á tvo meginþætti sem hamla velferð kennarastéttarinnar í heild. Það eru annars vegar launakjörin og hins vegar bætt starfsumhverfi. Barátta kennara fyrir samkeppnishæfum launum hefur vart farið framhjá neinum, enda eru verkföll hafin á öllum skólastigum. Starfsumhverfi kennara þarf að styðja betur við þær kröfur sem gerðar eru til kennarastarfsins. Þegar starfsvettvangur er orðinn áhættuþáttur fyrir veikindi eða kulnun er ljóst að sá vettvangur er ekki aðlaðandi.

Skólarnir eru ekki aðeins vinnustaður kennara og annarra starfsmanna heldur einnig vinnustaður barna frá eins árs aldri. Við lítum svo á að kjarabarátta kennara sé einnig barátta fyrir menntun og velferð barnanna okkar, enda hafa kennarar verið ötulir talsmenn fyrir bættu námsumhverfi, fjölbreyttum kennsluaðferðum og leiðum til að styðja við börn með ólíka færni og bakgrunn.

Viðreisn stendur fyrir frjálslyndi og jafnrétti. Í því ljósi teljum við mikilvægt að tækifæri til starfsþróunar og endurmenntunar standi öllum kennurum jafnt til boða óháð búsetu og að skólastjórnendur hafi frelsi til að skipuleggja skólastarf og koma til móts við mismunandi þarfir nemenda. Viðreisn vill tryggja að öll börn fái aðgengi að nauðsynlegri þjónustu og að nemendur í dreifðum byggðum fái ekki lakari þjónustu en önnur börn. Viðreisn leggur áherslu á að búa nemendum, kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi á öllum skólastigum og bregðast við áskorunum í dreifðari byggðum landsins þar sem mönnunarvandi er viðvarandi.

Allar slíkar framfarir og breytingar viljum við vinna í samráði og sátt við fólkið á gólfinu - fólkið sem á stóran þátt í að ala upp börnin okkar og hjálpa þeim að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Hvers virði er það fyrir þig? Hvers virði er það fyrir samfélagið í heild að innan skólakerfisins starfi sérfræðingar í menntun barna? Hvers virði eru kennarar í augum samfélagsins?

Fjárfestum í kennurum. Það er þess virði.

Höfundar skipa sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi: Davíð Brynjar Sigurjónsson, kennari og ferðamálafræðingur Draumey Ósk Ómarsdóttir, stuðningur á leikskóla og háskólanemi Helga Elísabet Beck Guðlaugsdóttir, þroskaþjálfi og stjórnsýslufræðingur Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir, kennari og þjálfari Urður Arna Ómarsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.