Vilja að Steingrímur endurskoði afstöðu sína

Ellefu félagar úr Vinstrihreyfingunni - grænu framboði í Norðausturkjördæmi hafa sent formanni flokksins, Steingrími J. Sigfússyni, opið bréf  þar sem þeir skora á hann að greiða ekki atkvæði með frumvarpi um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

 

ImageÍ bréfinu, sem birt er á vef flokksins í dag , er Steingrímur minntur á flokkssamþykkt þar sem segir að innganga í ESB þjóni ekki hagsmunum Íslands og að hann hafi í aðdraganda kosninga í vor alfarið hafnað inngöngu Íslands í sambandið.
 
"Hvernig má það vera að eftir á allt sem undan er gengið og skýra stefnu flokksins í þessum málaflokki ætlir þú Stengrímur J. Sigfússon að styðja frumvarp um aðildarumsókn Ísland að Evrópusambandinu. Ef ekki hafa orðið sinnaskipti hjá þér þá hlýtur að vera ætlan þín að flækjast fyrir málinu á öðrum stigum málsins. Ef svo er ert þú farinn að stunda þau klækjastjórnmál sem að mínu viti var verið að berjast gegn í búsáhaldarbyltingunni og Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur svo oft fordæmt."

Bréfritarar segja Steingrím gera sig að "ómerkingi" orða sinna með að greiða já við frumvarpinu. "Það sem verra er þá gerir þú mig og alla þá sem börðust fyrir flokkinn í aðdraganda síðustu kosninga að ómerkingum orða sinna. Sjálfur fékk ég 50 manns til þess að skrá sig í flokkinn fyrir síðustu kosningar og það var klárt í mínum huga og í orðræðum mínum við það fólk að aldrei myndi flokkurinn taka þátt í því að færa Ísland nær Evrópusambandinu. [...] Mín hollusta lítur ekki að ákveðnum foringja eða stjórnmálamönnum heldur lýtur mín hollusta að Íslandi og engu öðru. [...] Þú varst ekki kosinn á Alþingi Íslendinga af kjósendum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs til þess að samþykkja þesslags frumvarp."

Undir bréfið skrifar Guðbergur Egill Eyjólfsson, en meðal þeirra sem lýsa yfir stuðningi við bréfið eru Þorsteinn Bergsson, Ingunn Snædal, Ásmundur Páll Hjaltason og Hrafnkell Lárusson, sem öll áttu sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í kosningunum í vor.

Þá skorar stjórn Félags Vinstri grænna á Héraði, Seyðisfirði og Borgarfirði eystra á þingmenn flokksins að greiða atkvæði gegn aðildarumsókninni, enda sé slíkt í samræmi við stefnu flokksins.
"Stjórnin minnir á að í ríkisstjórnarsáttmála VG og Samfylkingar kvað á um að virða skyldi skoðanir allra þingmanna í þessu tiltekna máli og er það því klárt brot á þeim sáttmála að beita þingmenn VG einhverjum þvingunum í því, s.s. hótunum um stjórnarslit.
 
Ennfremur lofar stjórnin framgöngu þeirra fimm þingmanna VG sem staðið hafa traustan vörð um sjálfstæði þjóðarinnar í þessu máli og hvetur aðra þingmenn flokksins til  að ganga í lið með þeim við komandi atkvæðagreiðslu,” segir í ályktun stjórnarinnar.
 

 
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.