Vinnumarkaðsmál í brennidepli

Verkalýðshreyfingin á Austurlandi fylgist náið með framvindu mála í þeim erfiðleikum sem nú blasa við almenningi. Stéttarfélögin á Austurlandi eru í samstarfi við Vinnumálastofnun og Þekkingarnet Austurlands og munu n.k. mánudag kynna umfangsmikla áætlun um endur- og símenntun. Þá býður ASÍ forystan og AFL Austfirðingum til opins fundar um efnahags- og kjaramálin n.k. þriðjudag.

nytconstructionworkers.jpg

Í frétt frá AFLi segir að efnahagsþrengingum fylgi atvinnuleysi. Atvinnuleysi sé sóun á hæfileikum og starfsorku fólks. Til að mæta því ástandi sem nú blasir við hafi stéttarfélögin á Austurlandi tekið höndum saman við Þekkingarnet Austurlands,  Vinnumálastofnun Austurlandi og fjölmarga aðra aðila. ,,Við höfum sett í gang  umfangsmikla dagskrá til endur-og símenntunar.

Nk. mánudag kl. 13:00 verður á vegum félaganna og ÞNA kynningarfundur á því helsta sem í boði verður næstu vikurnar og mánuði. Fundurinn verður haldinn í húsnæði Þekkingarnetsins að Vonarlandi, Tjarnarbraut 39e, Egilsstöðum.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

 • Framboð á námskeiðum – Bergþóra Arnórsdóttir, ÞNA
 • Framhaldsskólarnir á Austurlandi – Þorbjörn Rúnarsson, skólastjóri ME
 • Starfsmenntasjóðir verkalýðsfélaganna – fulltrúar félaganna
 • Fjármálaráðgjöf – Anna Einarsdóttir, starfsmaður félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs
 • Náms-og starfsráðgjöf – Ragna Hreinsdóttir, AFL Starfsgreinafélag
 • Raunfærnimat – Einar Sveinn Árnason verkefnisstjóri

 Þá verða forseti ASÍ og aðrir forystumenn Alþýðusambandsins ásamt formanni AFLs með opinn almennan fund um ástand í efnhags-og kjaramálum nk. þriðjudag á Hótel Héraði á Egilsstöðum. AFL Starfsgreinafélag mun aðstoða félagsmenn við að skipuleggja ferðir, Áfram ísland, velja til að skoða nánarsjá um hópferðir frá þeim stöðum sem þátttaka verður næg og að öðrum kosti taka þátt í ferðakostnaði þar sem fólk hefur samvinnu um bílanotkun. 

Styrkur AFLs liggur í félagslegri aðstoð og menntun

Sverrir Mar Albertsson, formaður AFLs, sagði á fundi nýverið að reiðarslag hefði verið fyrir allan almenning á Austurlandi þegar Malarvinnslan fór í gjaldþrot á dögunum, ekki síst á Fljótsdalshéraði. Nú óttuðust menn að dómínókubbarnir væru rétt að byrja að falla. ,,Við vitum að næstu misseri verða erfið. Það er samdráttur og fólk mun eiga í fjárhags- og greiðsluerfiðleikum," sagði Sverrir Mar. ,,AFL hefur ekki mörg vopn uppi í erminni. Við getum virkjað okkar félagsmenn og boðið upp á úrræði eins og nám og ráðgjöf, en í okkar formlega vopnabúri er ekki mikið meira. Mestar áhyggjur höfum við atvinnuleysinu. Fólk sem hefur atvinnu getur tekist á við flest vandamál. Afleiðingar kreppu og samdráttar eru atvinnuleysi og ákveðin hætta er á félagslegri misskiptingu og fátækt. Við getum engan veginn sætt okkur við að stjórnvöld landsins komi atvinnulífinu á kaldan klaka, geri almenning allan eignalausan, sólundi lífeyrissparnaði og einkavæði almannaþjónustu."

AFL mun reyna að aðstoða það fólk sem á þarf að halda félagslega og stuðla að því að það geti nýtt tímann til að mennta sig og þjálfa, mögulega til nýrra starfa. Í máli Sverris kom fram að félagið var reiðubúið fyrir niðursveifluna, þó engan hafi órað fyrir hversu harkaleg hún yrði. ,,Við erum býsna vel í stakk búin nú og höfum síðustu þrjú árin lagt ofuráherslu á að mennta starfsfólk félagsins og kjarna trúnaðarmanna og annarra lykilmanna í félaginu. Við höfum unnið að menntastefnu okkar og í vor og sumar unnum við öflugan námskeiðspakka sem við ætlum keyra í samstarfi við Þekkingarnet Austurlands. Í sumar hófum við uppbyggingu á símenntunarmiðstöð og námsveri á Reyðarfirði og fyrir ári síðan stofnuðum við Starfsendurhæfingu Austurlands sem hefur síðan starfað með ágætum árangri." Hann rifjaði upp að tveimur dögum eftir fall Malarvinnslunnar voru fyrstu námskeið fyrir starfsmenn fyrirtækisins á vegum AFLs komin í gang og fleiri eru að hefjast.

Sverrir segir varlega hafa verið farið með fé félagsins síðustu árin og sjóðir efldir til að mæta mögrum árum. Lögð hafi verið mikil vinna og peningar í að efla félagsvirkni og samtakamátt og byggt hafi verið upp sterkt trúnaðarmannakerfi. Sérstök áhersla hafi verið lögð á að efla samtakamátt með þeim félagsmönnum AFLs sem fæddir eru annars staðar en á Íslandi.

,,Innviðir okkar eru sterkir, forystan og starfsfólkið er hæfur og samtaka hópur og við getum tekist á við þessi verkefni. Við munum reyna að berjast gegn hungurhagfræði Haarde og félaga."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.