Virðum það sem vel er gert og setjum X við V

Ég hef lagt mig fram um að stunda heiðarlega, málefnalega og jákvæða kosningabaráttu. Líkt og fyrir sveitarstjórnarkosningar á síðasta ári, sem var frumraun mín á pólitískum vettvangi, hef ég verið hófstillt í loforðum og reynt að hreykja mér ekki á kostnað annarra.

Ég stend einfaldlega fyrir þau málefni sem ég brenn fyrir og fyrir þann flokk sem staðið hefur vörð um þau málefni. Ég geri það af hugrekki, staðfestu og meðvirknilaust.

Nú er hamrað á reynslunni sem frambjóðendur búa yfir. Reynslulaus steig ég inn í sveitarstjórn og hef látið til mín taka og bætt upp fyrir reynsluleysið með hugrekki, staðfestu, heiðarleika og sanngirni.

Reynsla mín gerir mig að þeim frambjóðanda sem ég er. Ég þekki inniviði samfélagsins vel og hef menntun sem gefur mér djúpan skilning á ríkisvaldinu. Ég er fjögurra barna einstæð móðir, á langveikt barn, íþróttabarn, listabarn. Ég hef átt börn á flestum skólastigum. Ég þekki fátækt og allsnægtir. Ég hef unnið í fiski, verið bóndi í nýsköpun auk þess að hafa unnið fyrir hið opinbera. Ég hef elskað og kysst, grátið og misst. Haldbærasta reynslan okkar er jú alltaf sú að vera manneskja, að vera notandi þeirra kerfa sem samfélagið byggir á.

Fyrir hvað stendur VG?

Það er ekki alltaf vinsælt að standa með skoðunum sínum. Við erum ekki öll sammála um leiðina að betra samfélagi. Hægri og vinstri takast á og miðjan tifar þar á milli. Í kosningabaráttunni hefur verið að okkur vegið úr öllum áttum, við erum hækja hægrisins eða svo öfga vinstri sinnuð að ekki er hægt að tala við okkur. En hvað erum við í raun og fyrir hvað stöndum við?

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er róttækur vinstriflokkur sem leggur höfuðáherslu á jöfnuð og sjálfbærni. Stefna Vinstri grænna byggist á fjórum grunnstoðum: Umhverfisvernd, kvenfrelsi, alþjóðlegri friðarhyggju og félagslegu réttlæti. Á kjörtímabilinu höfum við komið ógrynni mála sem falla undir stefnu okkar í framkvæmd og er það fyrst og fremst okkar öflugu ráðherrum að þakka.

Nú þegar allir flokkar hafa vaknað upp við vondan draum í loftslagsmálum kemur skýrt fram hvað við í VG stöndum öðrum framboðum mun framar þegar kemur að málaflokknum. Við höfum nefnilega komið fram með fjármagnaða, útfærða loftslagsstefnu sem hefur náttúruvernd og réttlátt samfélag að leiðarljósi. Það að eyðileggja okkar ómetanlegu auðlind sem hálendið er og virkja þar síðustu sprænurnar er ekki rétta leiðin að orkuskiptum.

Í heilbrigðismálum hefur verið unnið grettistak og það á tímum heimsfaraldurs. Að einkavæða heilbrigðiskerfið og búa þannig til gróðrarstíu ójafnaðar og mismununar er ekki rétta leiðin. Við tölum fyrir fjölbreyttu atvinnulífi sem byggir á öflugum grunni í bland við nýsköpun og grænar lausnir. Það að stóla aftur og aftur á risavaxnar skyndilausnir sem hverfa jafn skjótt og þær birtast er ekki rétta leiðin.

Við viljum ekki ganga í Evrópusambandið. Sem smáríki í myrkviðum bjúrókratíunnar innan Evrópusambandsins, þar sem í flestum tilfellum eru ákvarðanir teknar með auknum meirihluta. Þar fá ríki úthlutað ákveðnum fjölda atkvæða sem ræðst að stórum hluta af íbúafjölda ríkis og stór aðildarríki ráða þar með yfir fleiri atkvæðum en minni ríkin. Meðan við erum enn að reyna að finna út úr því í nýlega sameinuðu Múlaþingi, hvernig við komumst hjá því að allt ákvörðunarvald, fjármagn og störf sogist inn í stærsta kjarnann eigum við lítið erindi í Evrópusambandið. Það er ekki rétta leiðin.

Það að bylta öllum okkar innviðum getur kitlað einhverja en þegar spurt er hvað svo? Er fátt um svör. Vinstri hreyfingin grænt framboð stefnir að því að halda áfram að vinna að málefnum fjölskyldna og fyrirtækja í átt að uppbyggingu og félagslegu réttlæti.

Virðum það sem vel er gert og setjum X við V á laugardaginn.

Höfundur er Austfirðingur og skipar 2. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.