Virkjum félagsauð Fjarðabyggðar

Sveitarfélög eiga að vera það stjórnvald sem stendur fólki næst. Við, sem störfum að sveitarstjórnarmálum í Fjarðabyggð, leitum sífellt leiða til virkrar lýðræðislegar þátttöku og nýtingar félagsauðs til að styrkja samfélagið til góðra verka.

Það felur í sér bjargfasta trú á að nýjum verkefnum og hröðum samfélagsbreytingum sé best mætt með samvinnu og með því að virkja þekkingu og frumkvæði heimamanna. Sem þýðir að styrkur samfélagsins felist í fjölbreytni, hvort sem er margbreytni ólíks bakgrunns, tungumáls eða mismunandi byggðakjörnum Fjarðabyggðar.

Nýr meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Fjarðabyggð hefur kynnt málefnasamning þar sem áhersla er á lífsgæði, gagnsæi, sýnileika og samtal. Þar er meðal annars kveðið á um eftirfarandi:

• Nýr meirihluti leggur áherslu á opna stjórnsýslu með aukinni upplýsingagjöf og eftirfylgni erinda. Innleidd verða fyrstu skref opins bókhalds sveitarfélagsins sem gefur íbúum kost á því að fylgjast með því í hvað fjármunirnir þeirra fara og hafa heildarsýn á rekstur sveitarfélagsins. Slíkt veitir einnig kjörnum fulltrúum og embættismönnum aukið aðhald.

• Aukið aðgengi að bæjarskrifstofunni og kjörnum fulltrúum veitir einnig aðhald, stuðlar að betra samtali og upplýstari ákvarðanatöku. Flokkarnir eru sammála um að auka sýnileik og reglulega viðtalstíma fulltrúa og bæjarstjóra í öllum byggðakjörnum. Að auki verða í boði í byggðarkjörnum viðtalstímar sviðsstjóra sveitarfélagsins.

• Auka á samvinnu og samstarf við ungmenna- og öldungaráð sveitarfélagsins í tengslum við vinnu nefnda. Að hlusta er ein undirstaða íbúalýðræðis.

• Þá ætlar sveitarfélagið að hefja að nýju móttöku nýrra íbúa og kynningu á þjónustu.

• Virkjun félagsauðs Fjarðabyggðar kallar á eflingu lýðræðislegrar vitundar allra íbúa. Þar á enginn að vera undanskilinn. Um 1.200 íbúar Fjarðabyggðar eru innflytjendur af fyrstu og annarri kynslóð og því lætur nærri að fjórði hver íbúi sé af erlendu bergi brotinn. Þessi hópur er ómissandi þáttur samfélagsins, ekki síst í uppbyggingu atvinnulífs. Fjölmargir íbúar hafa erlent móðurmál og eru ekki nægilega upplýstir um virkni og hlutverk sveitarstjórnarstigsins á Íslandi. Hvaða málaflokkar tilheyra ríkinu og hverjir sveitarfélaginu. Því verður ráðist í átak til að efla upplýsingagjöf íbúa af erlendum uppruna um þjónustu sveitarfélagsins.

• Síðast en ekki síst verður stofnað Fjölmenningarráð sem verður samráðsvettvangur bæjaryfirvalda með íbúum af erlendum uppruna. Mun ráðið funda reglulega með bæjarstjóra og bæjarráði. Væntingar okkar eru að fjölmenningarráðið auki gagnsæi, sýnileika og samtal.

Málefnasamningur meirihlutans Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks felur í sér mikinn metnað næstu tvö ár fram að sveitarstjórnarkosningum. Mikilvægur þáttur þar er virkjum félagsauðs sveitarfélagsins.

Virkjun félagsauðs kallar á eflingu lýðræðislegrar vitundar allra íbúa. Nærri fjórði hver íbúi Fjarðabyggðar er af af erlendum uppruna. Nýtt fjölmenningarráð verður samráðsvettvangur bæjaryfirvalda með þeim.

Þannig gerum við betur í Fjarðabyggð.

Birgir Jónsson er bæjarfulltrúi Framsóknarflokks og Þórdís Mjöll Benediktsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.