130 þátttakendur skráðir í Urriðavatnssund
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. júl 2022 13:28 • Uppfært 21. júl 2022 15:40
130 þátttakendur eru skráðir í Urriðavatnssund sem synt verður á laugardag. Tíu ár eru síðan fyrstu tilraunir með sundið voru gerðar.
Fjórir einstaklingar lögðust til sunds í vatninu sumarið 2012, tveir þeirra komust alla leið langsum yfir vatnið, 2,5 km leið. Formlega var fyrst synt 2013, síðan árlega þar til Covid-faraldurinn setti strik í reikninginn.
Í boði er heilt sund, hálft sund og svo 500 metra skemmtisund. Flestir eða 80 eru skráðir í lengsta sundið en um 40 í hálft sund. Vegna fjöldans eru stóra sundinu skipt í tvo riðla, sá fyrri ræsir klukkan 7:30 á laugardagsmorgunn.
Alls eru þátttakendur um 130 talsins en hafa verið fleiri. Sundhaldarar segjast þó ánægðir með aðsóknina en viðburðasókn er víða minni nú en áður vegna óvenju mikilla ferðalaga Íslendinga út fyrir landssteinana í sumar.
Útlitið fyrir laugardaginn er gott, spáð um 15 stiga hita og hæglætisveðri. Keppendur geta prófað vatnið milli klukkan sex og átta annað kvöld.