Skip to main content
Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor HA og Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepp, skrifuðu undir yfirlýsinguna. Mynd: Vopnafjarðarhreppur

Skrifað undir viljayfirlýsingu um stuðning HA við Nýtingarmiðstöðina á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. nóv 2025 10:23Uppfært 18. nóv 2025 10:24

Vopnafjarðarhreppur, fyrir hönd Nýtingarmiðstöðvarinnar og Háskólinn á Akureyri hafa skrifað undir viljayfirlýsingu og stuðning skólans við stofnun og uppbyggingu miðstöðvarinnar.

Nýtingarmiðstöðin er hýst í fyrrum húsnæði Sláturfélags Vopnfirðinga, sem Brim eignaðist eftir að Sláturfélaginu var slitið snemma árs 2024. Í miðstöðinni er unnið að því að standsetja aðstöðu fyrir frumkvöðla í matarframleiðslu.

Nýverið var undirrituð viljayfirlýsing milli HA og Vopnafjarðarhrepps um aðkomu skólans að uppbyggingu starfseminnar. Hún felur í fyrsta lagi í sér yfirlýsingu um vilja til að styðja stofnun og uppbyggingu og kanna frekara samstarf milli háskólans og miðstöðvarinnar.

Fyrsti áfanginn að samstarfinu er þegar kominn á. Finnbogi Rútur Þormóðsson, prófessor emeritus við HA, sem býr á Vopnafirði, hefur þegar fengið aðstöðu fyrir rannsóknabúnaði í Nýtingarmiðstöðinni. 

Viljayfirlýsingin felur í sér fyrstu skrefin að samstarfi, sem getur síðan orðið formlegt þegar það þróast áfram.

Að undanförnu hefur verið unnið að því að innrétta gamla sláturhúsið þannig það uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til matvælavinnslu auk þess að afla þess tækjabúnaðar. Rögnvaldur Þorgrímsson, sem ráðinn var verkefnastjóri fyrir ári, leiðir endurbæturnar. 

Fyrirmynd Nýtingarmiðstöðvarinnar er að miklu leyti sótt til BioPol á Skagaströnd, þar sem rekin er bæði vörusmiðja, vottað rými til þróunar og fullvinnslu afurða og rannsóknastofa. Í stjórn miðstöðvarinnar sitja fulltrúar Brims, Vopnafjarðarhrepps og Austurbrúar þar sem sveitarstjóri Vopnafjarðar er formaður.