Skip to main content

22 prósent íbúa Austurlands þegið fjórðu sprautuna vegna Covid

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. nóv 2022 09:21Uppfært 04. nóv 2022 09:25

Töluverður fjöldi yngra fólks hefur óskað eftir, og fengið, fjórðu örvunarsprautu vegna Covid á Austurlandi. Það í viðbót við stóran hluta fólks yfir sextugsaldrinum sem er mesti áhættuhópurinn.

Þetta staðfestir Jónína G. Óskarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, í samtali við Austurfrétt.

Um fátt var meira fjallað manna millum sem og í fjölmiðlum um tveggja ára skeið frá mars 2020 til síðla febrúar þessa árs þegar íslensk stjórnvöld ákváðu að aflétta öllum takmörkunum vegna faraldursins. Á sama tíma var hætt að bjóða svokölluð skyndipróf hjá heilbrigðisstofnunum landsins. Covid 19 er þó enn að valda usla víða í veröldinni sem er meginástæða þess að fólk eldra en sextugt er hvatt til að fá fjórðu sprautuna.

Alls hafa nú tæp 22 prósent íbúa Austurlands þegið fjórðu sprautuna, 41 prósent fengið þrjár sprautur, 19 prósent þegið tvo skammta og tvö prósent aðeins tekið eina sprautu. Rúm 16 prósent íbúa fjórðungsins, tæplega 1800 einstaklingar, hafa enn ekki verið bólusettir.