Ragnheiður Elín: Vildi óska þess að við gætum bara rukkað útlendingana

ragnheidur elin natturupassi 0007 webIðnaðar- og viðskiptaráðherra segir ekki hægt að leggja eingöngu komugjöld á flug frá útlöndum. Samkvæmt reglum EES yrði einnig að leggja það á innanlandsflug en það sé ekki stefna ríkisstjórnarinnar.

Þetta kom fram í máli ráðherrans á kynningarfundi um náttúrupassa á Egilsstöðum á mánudag. Gestir fundarins virtust sumir á því að betra væri að leggja á slíkan skatt eða mögulega rukka ferðamenn þegar þeir yfirgefi landið.

Fundargestir nefndu dæmi um slík gjöld en þau virðast ekki fyrirfinnast í Evrópu. Ragnheiður Elín sagði reglur evrópska efnahagssvæðisins um að ekki sé hægt að mismuna fólki eftir þjóðernum koma í veg fyrir komugjöldin.

„Ef tekin verða upp komugjöld þá þarf að leggja sömu upphæð á innanlandsflugið. Stefna ríkisstjórnarinnar er frekar að lækka álögur á innanlandsflugið og starfshópur vinnur að slíkum tillögur," sagði Ragnheiður Elín og ítrekað að núverandi álögur rynnu í þau verkefni sem þeim væri ætlað að standa undir.

Reynt hafi verið að finna leiðir framhjá reglunum og fá undanþágur en ferðir embættismanna til Brussel hafi reynst árangurslausar. Þá séu til staðar dómafordæmi í sambærilegum málum.

„Ég vildi óska þess að við gætum bara rukkað útlendingana en hversu ósanngjarnt og fúlt sem okkur þykir það þá höfum við reynt þetta.

Í máli hennar kom fram að ef komugjöldin yrðu lögð á allt flug myndi tekjurnar af hálfu koma frá Íslendingum. Að auki kæmu þau úr vasa þeirra sem ætlað væri að fá tekjur til framkvæmda á ferðamannastöðum, svo sem sveitarfélaganna.

Ragnheiður Elín sagði landamæragjald ennfremur óheimilt samkvæmt reglum Schengen og gistináttaskatturinn væri óhentugur því hann legðist alfarið á eina atvinnugrein og gæti þyngt rekstur smærri aðila. „Þetta eru leiðir sem lenda á endanum á okkur."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.