Ragnheiður Elín: Borgar ekki fyrir náttúrupassa til að horfa á fossinn heldur fyrir útsýnispallinn

ragnheidur elin natturupassi 0013 jan15Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segist skynja samstöðu um að afla þurfi fjár til uppbyggingar á helstu ferðamannastöðum þjóðarinnar. Eftir tíu daga mælir hún fyrir frumvarpi um náttúrupassa sem þegar er orðið umdeilt. Hún segist tilbúin að hlusta á mismunandi skoðanir á passanum í von um að sníða af agnúa.

„Uppbygging og viðhald á innviðum ferðamannastaða hefur ekki þróast í takt við fjölgun ferðamanna og við því þarf að bregðast," sagði Ragnheiður Elín á opnum kynningarfundi um passann á Egilsstöðum á mánudag.

Hún sagði fjárfestingaþörf í innviðum ferðamannastaða metna einn milljarð árlega. Fé þurfi í gerð skipulags, hönnum og loks framkvæmdir. „Þetta snýst um náttúru Íslands. Það er okkar að passa að ferðamennskan hverfi ekki eins og síldin forðum daga. Aðgerða er þörf strax."

Þeir borga sem njóta

Passinn kostar 1500 krónur og gildir í þrjú ár. Gert er ráð fyrir að hann verði seldur í gegnum netið. Íslendingum mun síðan duga að framvísa persónuskilríkjum.

Ragnheiður lagði áherslu á að ein af grunnhugmyndum passans sé að „þeir borgi sem njóti." Rannsóknir sýni að 70% Íslendinga ferðist utan sinnar heimabyggðar árlega og 80% þeirra erlendu ferðamanna sem hingað komi nefni náttúruna sem aðalaðdráttarafl landsins.

Á þessum grundvelli hafi hugmyndin um nefskatt ekki þótt fýsileg. „Hver er sanngirnin í því að einhver sem er rúmleggjandi á elliheimili og kemst ekki til að skoða landið borgi skattinn?" spurði ráðherrann.

Í forsendum frumvarpsins er reiknað með að 70% erlendra gesta kaupi passa en helmingur Íslendinga. Reiknað er með að 85-90% teknanna komi frá erlendum ferðamönnum.

Eftirlitið eins og með stöðumælum

Passinn mun gilda á öllum ferðamannastöðum í eigu ríkis og sveitarfélaga en tekjur af passanum verða nýttar í uppbyggingu þar. Einkaaðilar geta einnig sótt um aðild að passanum og þar með í sjóðinn gegn því að þeir taki ekki sjálfir gjald fyrir aðgang að stöðum í þeirra eigu.

Eftirlit með notkun passanna verður handahófskennt á völdum stöðum „eins og með stöðumæla. Við viljum ekki alltaf vera að stoppa fólk."

Gert er ráð fyrir að þetta verði staðir þar sem ráðist hefur verið í uppbyggingu. Ekki er kominn listi yfir staðina en Ragnheiður Elín segir að það hafi ekki verið gert strax til að láta umræðuna snúast um passann en ekki staðina. „Þetta snýst um örfáa staði sem gerðir verða opinberir á áberandi hátt. Meirihluti þjóðarinnar er ekki hlynntur því að hafa gjaldtökuhús á hverjum stað."

Umsjón verkefnisins verður í höndum Ferðamálastofu og Framkvæmdasjóðs ferðamannastaðar. Gert er ráð fyrir 2-3 fastráðnum starfsmönnum og aukafólki á álagstímum. Hún sagði þegar hefðu aðilar sýnt áhuga á að koma að bjóða lausnir. „Þetta er draumaverkefni góðra forritara."

Hún viðurkenndi að ekkert annað land notaði passa í sömu mynd en benti á að sambærilegt kerfi væri víða í þjóðgörðum. Hún óttaðist ekki að Íslendingar fetuðu nýjar leiði. Farið hefði verið yfir kosti og galla kerfa með erlendum sérfræðingum og náttúrupassinn komið best út.

Hlustað á öll rök

Ragnheiður Elín lýsti vonum sínum til að ljúka málinu á vorþingi en sagði að hlustað yrði á öll rök. Ekki væri ætlunin að keyra málið í gegnum þingið. Sú staða sé komin upp að flestir séu sammála um að ráðast þurfi í uppbyggingu ferðamannastaða og til þess þurfi tekjur en séu ósammála um leiðir.

„Menn geta haft mismunandi skoðanir á leiðum en við erum sammála um mjög margt. Við erum sammála um að þetta má ekki bíða lengur. Mitt heitasta markmið er að við ræðum okkur niður á lausn fyrir þinglok. Við megum ekki missa þetta mál aftur í óvissu."

Fundargestir spurðu út í leiðir eins og gistináttaskatt eða komugjöld á erlenda ferðamenn. Ragnheiður Elín sagðist ekki vilja ráðast í aðgerðir sem kæmu niður á ákveðnum geirum ferðamennskunnar auk þess sem komugjöldin væru ólögleg samkvæmt reglum EES.

Hún sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með nýlega ályktum Samtaka aðila í ferðaþjónustu, sem ályktuðu með hærra gistináttagjaldi, en benti á að ekki væru einhugur innan samtakanna.

Það að flestir væru tilbúnir að ræða einhvers konar gjaldtöku sýndi hversu langt menn væru komnir. „Fyrir nokkrum árum hefði ekki mátt ræða gjaldtöku," sagði hún.

Almannaréttur gengur ekki náttúruvernd framar

Hún viðurkenndi að hugsunin um að greiða fyrir aðgang að ferðamannastöðum væri Íslendingum framandi en taldi lagaheimildir skýrar. Þar vísaði hún til laga um náttúruvernd þar sem segir að rekstraraðili náttúruverndarsvæðis geti ákveðið sérstakt gjald fyrir svæði ef spjöll hafa orðið eða hætta er talin á þeim af ágangi ferðamanna.

„Almannaréttur gengur ekki náttúruvernd framar. Það er ekki hægt að eyðileggja náttúruna með almannarétti."

Hún ítrekaði að féð færi til að byggja upp aðstöðu en ekki rukka fyrir náttúruna. „Þú borgar ekki fyrir að horfa á fossinn heldur fyrir pallinn sem þú stendur á."

Þá sagði Ragnheiður Elín að með tekjunum væri hægt að byggja upp ferðamannastaði víða um landið og dreifa þannig álaginu. „Það eru önnur viðfangsefni hér en á Suðurlandi. Hér er nóg pláss og staðir sem þola meiri ágang."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.