Katrín Jakobsdóttir: Gengur ekki að fólk megi ekki fara um landið nema með strikamerki í símanum

katrin jakobsdottir vg 03042013Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, gerir ráð fyrir að frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa verði umdeilt á Alþingi í vor. Nærtækara sé að rukka fyrir ákveðna þjónustu fremur en setja alla náttúru landsins á markað.

„Þetta verður væntanlega mikið átakamál. Ég heyri ekki betur á öðrum stjórnarandstöðuflokkum og ég hef ekki skynjað einingu um málið í röðum stjórnarliða. Það liggur að minnsta kosti að við í vinstri grænum leggjumst gegn frumvarpinu," sagði Katrín í samtali við Austurfrétt.

Hreyfingin stóð fyrir opnum stjórnmálafundi á Egilsstöðum á mánudag þar sem náttúrupassinn var til umræðu. Síðar sama dag kynnti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, væntanlegt frumvarp á öðrum fundi.

„Fólk er sammála um að það þarf aukið fé í ferðaþjónustuna en það gengur ekki að setja alla náttúru Íslands á markað og leggja á hana gjald sem almenningur greiðir.

Hún segir aðrar leiðir færar heldur en passann. Síðasta ríkisstjórn lagði til hækkun gistináttagjalds en dregið var úr henni í þinginu. Þá sé réttara að greiða fyrir þjónustu eins og bílastæði við vinsæl svæði.

„Það er önnur hugmyndafræði að baki því að greiða fyrir þjónustu en að greiða fyrir að njóta náttúrunnar. Ég held að flestar, ef ekki allar, leiðir séu betri en sú sem lögð er til."

Fleiri leiðir hafa verið nefndar eins og komugjöld á flugfarþega. Samkvæmt reglum EES má ekki mismuna á grundvelli þjóðernis þannig að slík gjöld þyrfti að leggja jafnt á innanlandsflug sem millilandaflug. Ráðherrann kvaðst hafa hafnað hugmyndum um komugjöld þar sem þau myndu hækka verð innanlandsflugs.

Í samtali við Austurfrétt taldi Katrín ekki rétt að blanda innanlandsfluginu inn í umræðuna. Verðlagningu þess þurfi að skoða sérstaklega en ekki í umræðum um náttúrupassann.

Skilgreiningin á almannarétti er meðal þess sem tekist er á um. Katrín bendir á að rétturinn hafi verið í íslenskum lögum frá miðöldum og sé löngu orðin að grundvallarrétti landsmanna. „Þetta snýst ekki um upphæðina heldur grundvallarréttindi."

Eins hafi ferðaþjónustuaðilar lagst gegn náttúrupassanum. „Það gengur illa inn í ramma þeirra sem markaðssetja Íslands sem ósnortið land villtrar náttúru að hér sé eftirlit með því að fólk fari ekki um nema með strikamerki í símanum."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.