Skip to main content

5G á Norðfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. okt 2022 14:36Uppfært 13. okt 2022 14:41

Fjarskiptafyrirtækið Nova gangsetti nýverið farsímasendi á Norðfirði sem styður við 5G tæknina sem margfaldar gagnaflutninga með farsímum samanborið við fyrri tækni.


5G skilar að jafnaði 150-200 Mb/s hraða á sekúndu og fer reglulega upp fyrir 1.000 Mb/s. „Það þýðir að þeir íbúar sem eru með tæki sem styðja 5G, eru með eina hröðustu nettengingu sem fyrirfinnst á Íslandi og reyndar heiminum öllum. 5G hraði jafnast á við öflugustu ljósleiðaratengingar þar sem þú getur hlaðið niður allt að 2,3 GB á sekúndu og svartíminn er undir 10 millisekúndur.

Fyrir Neskaupstað þýðir innleiðingin mun meiri afköst en íbúar hafa þekkt hingað til, hvort sem er í gegnum síma eða jarðtengingar, auk þess sem 5G þjónusta mun veita íbúum gífurlega hratt streymi, styttri svartíma, og niðurhal á ofurhraða,“ segir Benedikt Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjarskipta Nova.

Nova hefur verið leiðandi í innleiðingu 5G tækninnar hérlendis. Komnir eru upp 75 sendar víða um land. Á Austurlandi eru 5G sendar Nova á Seyðisfirði og Reyðarfirði. Áætlað er að þeir verði orðnir 200 árið 2024.

„5G Nova er nú þegar komið upp í öllum landshlutum og mun eflast hratt á næstu mánuðum. Fleiri og öflugri sendar auka öryggi landsmanna. Nova hefur fjárfest umtalsvert í innviðum sínum á síðustu árum sem hefur gert félaginu kleift að stíga mikilvæg skref sem þessi og halda áfram að vera leiðandi og í fremstu röð í innleiðingu 5G á Íslandi,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

Að auki er Síminn með 5G sendi á Egilsstöðum.