5G þjónusta nú í boði bæði á Seyðis- og Reyðarfirði
Þrír staðir hafa nú fengið 5G fjarskiptaþjónustu á Austurlandi samkvæmt upplýsingum frá Fjarskiptastofu. Það eru Egilsstaðir, Seyðisfjörður og Reyðarfjörður.
Hér skal tekið fram að það eru tiltekin fjarskiptafyrirtæki sem sjá um að setja upp senda fyrir 5G og að slíkt bjóðist á fyrrgreindum stöðum merkir ekki að allir hafi að því aðgang. Til þess þarf viðkomandi að vera hjá því fyrirtæki sem setur upp sendana.
Þorleifur Jónasson, sviðsstjóri Fjarskiptastofu segir við Austurfrétt að hverju og einu fyrirtæki sé í sjálfvald sett hvar þau auki þjónustu við sína notendur en í tilvikum Seyðis- og Reyðarfjarðar er þar um Nova að ræða. Á Egilsstöðum er það aðeins Síminn sem býður 5G að svo stöddu og hefur gert frá áramótum.
Þorleifur segir að til standi með haustinu af hálfu stofnunarinnar að opinbera dreifikort fyrir allt landið til að almenningur geti betur áttað sig á hvar nákvæmlega hraðasta tenging er í boði og hvar ekki. Stofnunin hvetur sem fyrr til hraðrar og aukinnar uppbyggingar 5G kerfisins á landsvísu og í því tilliti hjálpa mikið sérstök ákvæði í nýjum fjarskiptalögum sem samþykkt voru á Alþingi fyrir skömmu og taka gildi þann 1. september næstkomandi.