Skip to main content

Ætla að skipta um hluta af lögnunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. júl 2022 16:01Uppfært 25. júl 2022 16:01

Skipt verður um hluta þeirra lagna sem liggja að Bjólfsvirkjun, neðra stöðvarhúsi Íslenskrar orkuvirkjunar (ÍOV) við Fjarðarár í Seyðisfirði. Rör gaf sig við virkjunina í síðustu viku.


Sérfræðingur frá framleiðanda röranna kom til Seyðisfjarðar á föstudaginn var til að skoða aðstæður. Guðmundur Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri ÍOV, segir skoðunina ekki hafa leitt neitt afgerandi í ljós, til standi að senda íhluti út til nánari athugunar.

Fjarðarárvirkjun er samheiti yfir tvær virkjanir. Uppi á Fjarðarheiði er lón og vatn úr því leitt í þrýstipípu niður að Gúlsvirkjun. Þar fer áin á rennsli og heldur áfram niður undir Fjarðarsel og er vatn leitt þaðan í pípu að Bjólfsvirkjun. Þar við hafa rör farið í sundur tvisvar á rúmum mánuði.

Guðmundur segir að ákveðið hafi verið að skipta út pípum næst Bjólfsvirkjun, þar sem vatnsþrýstingurinn sé mestur. Ekki sé búið að ákveða um á hve stórum kafla verði skipt, það verði ákveðið með framleiðanda röranna og skýrist vonandi í næstu viku.

Bjólfsvirkjun er ekki í rekstri meðan lausnir eru útfærðar.