„Afar sáttur í nýju krefjandi starfi sem forstjóri RARIK“
„Þessi mál hafa lengi verið mér hugleikin enda sjálfur rafmagnsverkfræðingur og hef ágæta reynslu af þessu hinu megin frá svo það hjálpar mikið til,“ segir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK.
Magnús kannast margir Austfirðingar við enda hélt hann lengi vel um stjórnartauma hjá Alcoa-Fjarðaáli á Reyðarfirði. Sjálfur er hann feiminn við að kalla sig Austfirðing og er ekki viss um að tólf ára búseta í fjórðungnum dugi til að verðskulda þann titil. Magnús söðlaði um snemma síðasta vor og tók við forstjórastöðunni hjá RARIK og segir starf sitt fjölbreytt og skemmtilegt en jafnframt krefjandi.
Hann var ásamt fríðum flokki úr stjórnendateymi RARIK á sérstökum afmælisfundi í Valaskjálf á Egilsstöðum í gær en fyrirtækið fagnar nú 75 ára afmæli. Þar voru flutt mörg athyglisvert erindi en upp úr stóð að RARIK, eins og mörg önnur fyrirtæki landsins, standa á ákveðnum krossgötum með tilliti til hlýnunar jarðar og nauðsynlegra orkuskipta framtíðarinnar.
„Það er óhætt að segja að það er nokkuð krefjandi tímar framundan fyrir okkur og að mörgu að hyggja til að tryggja íbúum þessa lands það rafmagn sem þarf þegar á þarf að halda þegar fram líða stundir. Þess vegna erum við að horfa til framtíðar með lausnir sem henta og það mjög verðugt verkefni.“
Magnús utan við Valaskjálf að loknum afmælisfundinum í gær. Mynd AE