Áfram vandræðagangur á innanlandsfluginu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. sep 2022 07:51 • Uppfært 19. sep 2022 07:51
Ítrekaðar seinkanir hafa verið á flugi innanlands undanfarna viku. Bilanir hafa komið upp í vélunum sem sinna fluginu hjá Icelandair.
Grundvöllur vandræðanna virðist vera sá að önnur af stærri vélum félagsins hefur ekkert getað flogið undanfarna viku. Samkvæmt upplýsingum af Flightradar á hún að fara aftur í áætlun seinni partinn í dag og taka Egilsstaðaflugið í kvöld.
Við þetta hafa bæst vandræði með fleiri vélar. Þannig var morgunflugi til Egilsstaða á laugardag aflýst og kom Boeing 737 MAX þota austur um kvöldið til að vinna upp vandræðin.
Þegar áætlanir Icelandair eru skoðaðar aftur í tímann á Flightradar kemur í ljós að undanfarna viku hafa reglulega orðið töluverðar tafir á flugi. Þannig var seinkunni um tvo tíma gegnumgangandi á föstudag og í gær varð einnig meira en klukkustundar seinkunn á miðdegisvél. Tafir hafa verið á fleiri flugleiðum innanlands og til Grænlands.
Í svari upplýsingafulltrúa Icelandair við fyrirspurn Austurfréttar segir að flugvélaskortur hafi komið upp af og til síðustu daga, líkt og á laugardagsmorgunn. Þetta sé bæði vegna reglubundins viðhalds en líka tæknilegra atriða sem komið hafi upp með skömmum fyrirvara.