Skip to main content

Áhorfendamet á Að austan í september

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. okt 2022 14:26Uppfært 13. okt 2022 16:44

Áhorfendamet var slegið á þættina Að austan sem sjónvarpsstöðin N4 heldur úti um austfirsk málefni í septembermánuði.


Nærri 30 þúsund sóttu tvo þætti úr þáttaröðinni á tímaflakki hjá Símanum og Vodafone í september. Tæplega 11 þúsund manns búa á Austurlandi.

Í tilkynningu frá N4 kemur fram að áhorf á þættina hafi breyst mikið síðustu misseri, færst frá áhorfi í línulegri dagskrá yfir að áhorfendur velja sér hvenær þeir horfi, ýmis með tímablakki sjónvarpsveitna eða í gegnum heimasíðu N4. Hreyfingin í þá átt nemur 46%.

„Það má segja að fólk sé farið að velja sér dagskrána sína sjálft og sækir þá þætti og efni sem höfðar til þeirra,“ segir María Björk framkvæmdastjóri N4 sem jafnframt er þáttastjórnandi Að austan.

„Við erum bæði stolt og þakklát fyrir þennan árangur sem segir okkur jafnframt að fólk vill horfa á íslenskt sjónvarpsefni þar sem raddir landsbyggðanna fá að hljóma,“ bætir hún við.

Næsti þáttur Að austan verður frumsýndur í kvöld. Þar verður meðal annars farið á tónleika í Hjaltalundi, í Hálsaskóg við Djúpavog, á Tækniminjasafn Austurlands og í heimsókn til Rammalausna í Fellabæ.