Alcoa styrkir sjálfseflingu ungmenna í Fjarðabyggð og Múlaþingi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. nóv 2022 16:02 • Uppfært 04. nóv 2022 16:02
Styrkur frá Alcoa Foundation til að efla ungmenni í Fjarðabyggð og Múlaþingi var formlega afhentur síðast föstudaga. Verkefni vegna styrksins hafa staðið yfir frá 2020 en alls er um að ræða 150 þúsund dollara eða um 21 milljón íslenskra króna sem nýttar hafa verið til að standa fyrir sjálfstyrkjandi verkefnum fyrir ungmenni í sveitarfélögum.
Styrkurinn var veittur til tveggja ára en vegna Covid-faraldursins þá frestuðust sum verkefnanna og verður því haldið áfram að ljúka þeim á næsta ári.
Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, Eyrún Inga Gunnarsdóttir deildarstjóri tómstunda- og forvarnarmála Fjarðabyggðar, Jónína Brynjólfsdóttir forseti sveitastjórnar Múlaþings og Árni Heiðar Pálsson forstöðumaður félagsmiðstöðva í Múlaþingi veittu styrknum viðtöku frá Dagmar Ýr Stefánsdóttur yfirmanni samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli.
Alcoa Foundation hefur áður veitt styrki til sveitarfélaganna vegna skólamála og hefur samstarfið ávallt verið gjöfult, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Verkefnið sem unnið hefur verið fyrir þennan styrk gæti orðið góð fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög sem vilja vinna að sjálfstyrkingu unglinga og bjóða upp á fræðsluverkefni því tengdu.
Grunnhugmynd verkefnisins er að ná til ungmenna á aldrinum 13 – 16 ára á Austurlandi með það að leiðarljósi að efla andlega líðan, sjálfsmynd og sjálfsöryggi. Þáttur í verkefninu eru margvíslegar smiðjur og námskeið fyrir ungmenni, kennara og leiðbeinendur félagsmiðstöðva á svæðunum. Þá er rík áhersla lögð á forvarnir, bæði gegn áhættu- og fíknihegðun og til að draga úr líkum á einelti meðal ungmenna á Austurlandi. Meðal verkefna sem þegar hafa átt sér stað fyrir tilstilli styrksins eru:
- Sálfræðingar frá Fjarðabyggð fóru í 8. bekki grunnskóla í Fjarðabyggð og Múlaþingi og voru með fræðslu og umræður um sterka sjálfsmynd og andlega heilsu.
- Námskeið fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva til að gefa þeim verkfæri til að takast á við eineltismál og samskiptavanda í hópum
- Erna Kristín frá Ernulandi fór í grunnskólana með fyrirlestur um jákvæða líkamsímynd með það að markmiði að gefa unglingum verkfæri til að takast á við óraunhæfar staðaðalmyndir og neikvæða líkamsímynd.
- Danssmiðjur með það markmið að styrkja trú ungmenna á eigin getu og styrkja sjálfsmyndina í gegnum dans og hreyfingu.
Þegar styrkurinn var afhentur voru 40 ungmenni frá sveitarfélögunum saman komin í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum til að taka þátt í leiðtogabúðum á vegum KVAN. KVAN er fyrirtæki sem sérhæfir sig í að styðja við ungt fólk og hjálpa því að finna styrkleika sína. Þá standa starfsmenn félagsmiðstöðva sveitarfélaganna einnig fyrir dagskrá í leiðtogabúðunum.