Aldrei séð jafn mikla seltu á raflínunum

Viðbúið er að rafmagnslaust verði í Berufirði fram yfir hádegi í dag og miklar truflanir voru í gær í Fáskrúðsfirði og á svæðinu sunnan við Djúpavog. Starfsmenn Rarik berjast við að hreinsa seltu af línum eftir storminn í byrjun vikunnar.

„Við höfum ekki áður séð svona mikla seltu á búnaði hér,“ segir Kári Snær Valtingojer, hjá Rarik Austurlandi.

„Það er vel þekkt að bilanir komi fram þegar lægir eftir storm og staðan hefur verið leiðinleg eftir að það lægði í gær. Seltan veldur vandræðum um leið og blotnar í henni og sú áseta sem gerir á næturnar er nóg.“

Miklar rafmagnstruflanir voru í Berufirði, Hamarsfirði og Álftafirði í gær auk Fáskrúðsfjarðar. „Þessi svæði fóru nánast út til skiptis í gær. Við gáfumst hreinlega upp við að reyna að halda Berufirðinum inni nótt.“

Hamars- og Álfafjörður hafa haldist inni frá því um 1:30 í nótt en í Berufirði hefur verið rafmagnslaust síðan um miðnætti. Þar er önnur fjarskipti að detta út, net, símar og GSM-kerfi auk þess sem kólnar í húsum. Aðgerðir eru að fara af stað þar en ekki er útlit fyrir að rafmagn komist á fyrir svæðið milli Teigarhorns að sunnanverðu og Núps að norðanverðu fyrr en um klukkan tvö í dag.

Til að halda rafmagninu inni þurfa starfsmenn Rarik að klifra upp í hvern einasta rafmagnsstaur og skafa seltuna af búnaðinum. Það er mikið líkamlegt álag en viðgerðaflokkarnir hafa haft nóg að gera síðan á sunnudag.

Í Fáskrúðsfirði var lokið við að hreinsa seltuna af í morgun og komst rafmagn á út að Hafnarnesi um klukkan átta í morgun.

Truflanir urðu einnig í dreifikerfi Landsnets í nótt vegna seltu á Hólalínu í Hamarsfirði, en hún tengir saman Teigarhorn og Hóla í Hornafirði. Straumlaust varð á Hornafjarðarsvæðinu vegna þessa og truflanir inn á mitt Austurland.

Kári segir viðbúið að áfram verði truflanir vegna seltunnar þar sem rigni vel þannig línurnar hreinsist. Ekki er spáð rigningu á Austfjörðum fyrr en annað kvöld.

Mynd: Rarik


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.