Skip to main content

Allt að smella fyrir hjólagarpa í Eyvindarárdal

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. júl 2022 10:54Uppfært 29. júl 2022 10:55

„Það er frestur til að leggja fram athugasemdir fram í ágúst en ef ekkert kemur upp á þar sérstakt er ekki útilokað að við getum klárað málið og hafist handa á staðnum fyrir veturinn,“ segir Árni Páll Einarsson, formaður akstursíþróttaklúbbsins START.

Klúbburinn óskaði eftir og fékk á síðasta ári úthlutað landi í Eyvindarárdal undir nýtt svæði til æfinga og keppni fyrir mótorhjóla- og hjólareiðamenn en um alls 140 hektara lands er þar um að ræða. Svæðið sem um ræðir er skammt frá afleggjaranum að Mjóafirði frá þjóðveginum um Fagradal en utar í sama dal er jafnframt æfingasvæði Skotfélags Austurlands. Klúbburinn hefur aldrei haft neitt skipulagt svæði undir starfsemina en tæplega hundrað félagsmenn eru í START.

Árni segir ferlið hafa gengið vel hingað til en breyta þurfti bæði aðal- og deiliskipulagi til að koma til móts við klúbbinn. Ekkert sé þó hundrað prósent í hendi fyrr en ferlinu ljúki vonandi á næstu vikum. Sveitarfélagið Fjarðabyggð veitt sína blessun nýverið vegna breytinga á svæðinu þegar leitað var þeirra álits.

„Gangi allt smurt sem eftir er ekki útilokað að við getum hafist handa á svæðinu í haust en það er mikið verk framundan auðvitað. Ef við náum að byrja framkvæmdir og jafnvel byrja að forma brautir fyrir veturinn yrðum við í góðum málum á næsta ári.“

Ráðgert er að á nýja svæðinu verði allt að tveggja kílómetra löng mótorkrossbraut auk hálfs kílómetra langrar brautar fyrir börn. Sex kílómetra löng fjallahjólabraut verður jafnframt lögð auk tólf kílómetra langrar brautar fyrir enduro-hjól. Þar skal jafnfram reisa aðstöðuhús og bílastæði.

Mikill áhugi er á mótorsporti og fjallahjólreiðum víða á Austurlandi og nú hyllir í að það fólk fái sitt eigið svæði til afnota.