Skip to main content

Allt gekk upp á Neistaflugi þrátt fyrir miður gott veður

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. ágú 2022 14:43Uppfært 02. ágú 2022 14:45

„Þó veðrið hefði ekki verið með okkur í liði þessa helgina þá gekk allt upp hjá okkur og við þurftum ekki að fresta eða hætta við neitt sem var á dagskránni,“ segir María Bóel Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Neistaflugs.

Það leit ekki sérstaklega út fyrir skemmtanahald utandyra fyrir helgi þegar veðurspár gerðu ráð fyrir hvassviðri og úrhelli stóran hluta helgarinnar hér austanlands. Spárnar atarna gengu góðu heilli bara að hluta til upp og í Neskaupstað á stærstu hátíð Austurlands yfir þessa miklu skemmtanahelgi fór allt á besta veg að sögn Maríu.

„Við fluttum alla barnadagskrá inn í hús á laugardeginum og gerðum það sama með tónleikana þann dag. Allt gekk það upp þó þéttskipað væri. Okkur tókst að halda öllu öðru samkvæmt áætlun og við öll sem að stóðum erum stolt af.“

María segir óljóst hversu margir gestir hafi sótt bæinn yfir hátíðina að þessu sinni en hefur sjálf aldrei séð svo mörg ókunn andlit yfir Neistaflug og nú var.

„Svo var mikill fjöldi brottfluttra sem létu sjá sig þrátt fyrir dapra veðurspá og það er ótrúlega gaman að hitta gamla vini og kunningja við þær kringumstæður. Sömuleiðis voru allir mjög kátir með dagskrána og þá listamenn sem komu fram.“

Lögreglumenn voru líka afar sáttir með helgina í Neskaupstað enda nánast í engin horn að líta og ekkert markvert kom upp á á hátíðinni.

María Bóel segir aðstandendur ekki vera farna að undirbúa næsta Neistaflug enn sem komið er en segist finna strax fyrir ákveðinni pressu sökum þess að hátíðin á 30 ára afmæli næsta sumar.

„Það er ljóst að þá verður að vera eitthvað alveg sérstakt og við reynum okkar besta til að það verði raunin.“

Hinn frábæri ljósmyndari Hlynur Sveinsson var vitaskuld með flygildi sitt á lofti meðan á hátíðinni stóð og tók þessa af mannfjöldanum á íþróttasvæðinu á laugardeginum.