Skip to main content

Allt orðið klárt í góða Bræðslu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. júl 2022 09:55Uppfært 21. júl 2022 09:59

„Annars eru orðnir svo margir stórir viðburðir á Borgarfirði eystra nú til dags að við erum nánast ekkert svo merkileg lengur,“ segir Magni Ásgeirsson, forsprakki Bræðslunnar, hlæjandi við Austurfrétt.

Það sem er vafalítið ein þekktasta tónlistarhátíð Austurlands hefst með pompi og prakt á morgun og ekki þarf að spyrja neitt út í miðasölu því uppselt var orðið fyrir nokkru síðan að sögn Magna. Bræðslan kemur strax í kjölfar fimm daga tónleikaraðar Jónasar Sig sem aftur kom nánast í kjölfarið á mikilli hátíð kringum Dyrfjallahlaupið.

„Við seljum alltaf sama fjölda miða eða um 800 talsins og það er allt farið eins og undanfarin ár. Þetta er reyndar afar þægilegur fjöldi því þetta á að vera skemmtilegt en ekki yfirdrifið. Undirbúningur gengur eins og í sögu og allt klárt orðið í góða Bræðslu.“

Að vanda hefst húllumhæið annað kvöld með föstudagsforleik svokölluðum en þá stíga á stokk í Fjarðaborg Hipsumhaps, Emmsjé Gauti, Flott og Una Torfa. Um helgina sjálfa detta svo inn stórvesírar á borð við Mugison og KK, Skálmöld, Malen og Írafár svo einhverjir séu nefndir.

Þegar er kominn töluverður fjöldi fólks á tjaldsvæðið að sögn Árna M. Magnússonar, rekstraraðila þess. Með tilliti til að veðurspáin er nokkuð hagstæð út helgina má gera ráð fyrir auknum fjölda þegar nær dregur á helgina.